Handbolti

Vals­menn fyrstir í úr­slit Evrópu­keppni í 44 ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexander Örn Júlíusson er fyrirliði Vals.
Alexander Örn Júlíusson er fyrirliði Vals. vísir/anton

Valur er kominn í úrslit EHF-bikars karla í handbolta eftir sigur á Minaur Baia Mare í Rúmeníu í dag, 24-30. Valur mætir Olympiacos frá Grikklandi í úrslitum í næsta mánuði.

Valsmenn stóðu vel að vígi eftir átta marka sigur í fyrri leiknum um síðustu helgi, 36-28. Og þeir unnu annan öruggan sigur í dag, 24-30, einvígið, 66-52 samanlagt.

Þetta er í fyrsta sinn í 44 ár sem íslenskt karlalið kemst í úrslit Evrópukeppni. Valur komst í úrslit Meistarakeppni Evrópu 1980 en tapaði fyrir Grosswallstadt, 21-12.

Valur náði strax yfirhöndinni í leik dagsins og Minaur Baia Mare sá aldrei til sólar. Valsmenn spiluðu frábæran varnarleik í fyrri hálfleik þar sem Rúmenarnir skoruðu aðeins átta mörk. Á meðan gerðu Hlíðarendapiltar sautján og því var níu marka munur í hálfleik, 8-17.

Lítil spenna var í seinni hálfleiknum enda úrslit einvígisins ráðin. Heimamenn náðu aðeins að laga stöðuna og á endanum var munurinn á liðunum sex mörk, 24-30.

Andri Finnsson átti stórleik fyrir Val en línumaðurinn skoraði níu mörk úr níu skotum. Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði fjögur mörk og Tjörvi Týr Gíslason, Vignir Stefánsson og Agnar Smári Jónsson þrjú hvor. 

Leikið er heima og að heiman í úrslitum EHF-bikarsins. Fyrri leikurinn fer fram 18. eða 19. maí og sá síðari 25.-26. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×