Körfubolti

Lakers einu tapi frá því að vera sópað út úr úr­slita­keppninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James var ekki alltaf sáttur með dómgæsluna í nótt en kannski aðallega súr yfir því að Los Angeles Lakers liðið á engin svör á móti Denver Nuggets.
LeBron James var ekki alltaf sáttur með dómgæsluna í nótt en kannski aðallega súr yfir því að Los Angeles Lakers liðið á engin svör á móti Denver Nuggets. AP/Ashley Landis

LeBron James og félagar í Los Angeles Lakers virðast eiga fá svör gegn meisturunum í Denver Nuggets.

Nuggets vann 112-105 sigur í Los Angeles í nótt og er 3-0 yfir í einvígi liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

LeBron James og Anthony Davis voru saman með 59 stig í leiknum en það dugði ekki til. Það dugði heldur ekki að Lakers vann fyrsta leikhlutann með tíu stigum, 33-23. Davis var með 33 stig og 15 fráköst en James var með 26 stig og 9 stoðsendingar.

Alveg eins og í leiknum á undan þá komu Denver menn til baka og unnu að lokum sinn ellefta sigur í röð á Lakers. Denver vann fjórða leiki í röð á móti Lakers í úrslitakeppninni í fyrra og getur nú endurtekið leikinn.

Aaron Gordon var frábær með 29 stig og 15 fráköst og hinn magnaði Nikola Jokic bætti við 24 stigum, 15 fráköstum og 9 stoðsendingum. Jamal Murray skoraði síðan 22 stig.

Þessi úrslit þýða að Denver getur sópað Lakers mönnum út úr úrslitakeppninni í næsta leik sem fer fram á morgun og þá aftur í Los Angeles.

Joel Embiid er ekki tilbúinn að gefast upp í viðureign Philadelphia 76ers og New York Knicks. Knicks vann tvo fyrstu leikina en 76 ers minnkaði muninn í nótt ekki síst þökk sé frábærri spilamennsku stóra mannsins. Embiid skoraði 50 stig í 125-114 sigri en hann er að spila í gegnum meiðsli á hné.

Embiid hitti úr öllum fjórum þriggja stiga skotum sínum og skoraði átján af stigum sínum í þriðja leikhlutanum þar sem 76ers vann 43-27.

Embiid hitti alls úr 13 af 19 skotum sínum utan af velli og úr 19 af 21 vítaskoti sínu. Hann varð sá fyrsti til að skora fimmtíu stig í úrslitakeppni án þess að taka tuttugu skot.

Jalen Brunson var frábær hjá Knicks með 39 stig og 13 stoðsendingar en það nægði ekki.

Orlando Magic náði líka að minnka muninn í 2-1 á móti Cleveland Cavaliers með 121-83 sigri. Paolo Banchero var með 31 stig og 14 fráköst og Jalen Suggs skoraði 24 stig í mjög öruggum sigri þar sem liðið komst með 43 stigum yfir.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×