Í samtali við breska ríkisútvarpið segist Brian Mikkelsen, forstjóri Viðskiptaráðs Danmerkur (Dansk Erhverv), hafa tekið á rás að byggingunni um leið og hann heyrði af brunanum. Auk slökkviliðsmanna og samstarfsmanna hafi hann farið inn í bygginguna til þess að bjarga verðmætum.
Þá segir hann viðbragðsaðila hafa náð að bjarga megninu af minjagripunum inni í byggingunni, að utantalinni styttu af Kristjáni fjórða sem vó tvö tonn.
Mikkelsen segir mikilvægt að Børsen verði byggð í sömu mynd og upprunalega byggingin. „Fyrir mér ætti að byggja hana aftur nákvæmlega eins og Kristján fjórði byggði hana á sínum tíma,“ segir hann.
Búist er við að endurbygging Børsen komi til með að kosta meira en milljarð danskra króna, eða tuttugu milljarða íslenskra króna. Mikkelsen segir þó mörg af stærstu fyrirtækjum landsins hafa heitið að leggja hönd á plóg við fjármögnun nýrrar bygingar. Hann sé hrærður yfir stuðningnum.
Sophie Hæstorp Andersen borgarstjóri í Kaupmannahöfn hefur að auki talað fyrir því að gamla kauphöllin verði endurbyggð. Hún hefur sett sig í samband við Anne Hidalgo, borgarstjóra í París, í þeim tilgangi að fá upplýsingar um endurbæturnar á Notre Dame, en stefnt er á að framkvæmdum við dómkirkjuna ljúki seinna á árinu.