Enski boltinn

Guardiola: Palmer bað um að fá að fara í tvö ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola gefur hér Cole Palmer fyrirmæli þegar strákurinn var leikmaður Manchester City.
Pep Guardiola gefur hér Cole Palmer fyrirmæli þegar strákurinn var leikmaður Manchester City. Getty/Nick Potts

Cole Palmer hefur slegið í gegn hjá Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í vetur og hann verður í sviðljósinu á móti sínum gömlu félögum í undanúrslitaleik ensku bikarsins í dag.

Chelsea mætir þá ríkjandi bikarmeisturum í Manchester City á Wembley. City þarf nú að reyna að stöðva sjóðheitan leikmann sem var leikmaður liðsins fyrir ári síðan.

Manchester City seldi Palmer til Chelsea síðasta sumar fyrir 42,5 milljónir punda. Hann hefur verið ein af kaupum ársins enda búinn að skora 23 mörk í öllum keppnum þar af tuttugu mörk í ensku úrvalsdeildinni.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, var spurður um það á blaðamannafundi hvort að það hafi verið mistök að leyfa þessum efnilega knattspyrnumanni að fara. Hinn 21 árs gamli Palmer fékk fá tækifæri hjá Guardiola og vildi fara.

„Hann er einstakur leikmaður,“ sagði Guardiola sem átti ekki auðvelt með að svara spurningunni.

„Ég hef sagt þetta mörgum sinnum. Ég gaf honum ekki mínúturnar sem hann átti skilið að fá og hann er nú að fá hjá Chelsea. Ég skil þetta fullkomlega,“ sagði Guardiola.

„Hann er feiminn gaur með mikla möguleika. Þannig er það bara. Hann er að spila frábærlega og hvað get ég sagt? Þessi ákvörðun var margþætt. Hann var búinn að biðja um að fá að fara í tvö ár,“ sagði Guardiola.

„Ég sagði honum að vera áfram. Hann sagði að hann vildi fara. Hvað gátum við gert? Ég sagði honum að vera áfram að því að Riyad [Mahrez] væri farinn en hann vildi fara í tvö tímabil,“ sagði Guardiola.

Leikur Chelsea og Manchester City verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2 í dag. Leikurinn sjálfur hefst klukkan 16.15 en upphitun á Stöð 2 Sport 2 hefst klukkan 16.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×