Viðskipti innlent

Hafa náð nýjum sölu­samningi í Banda­ríkjunum

Atli Ísleifsson skrifar
Róbert Wessmann er stofnandi og stjórnarformaður Alvotech.
Róbert Wessmann er stofnandi og stjórnarformaður Alvotech. Vísir/Vilhelm

Líftæknifyrirtækið Alvotech hefur gert langtímasamning við „leiðandi innkaupaaðila lyfja í Bandaríkjunum“ um sölu og markaðssetningu á Simlandi (adalimumab-ryvk), fyrstu líftæknilyfjahliðstæðunni í háum styrk með útskiptanleika við Humira.

Frá þessu segir í tilkynningu frá Alvotech til Kauphallar en Matvæla- og lyfjastofnunar Bandaríkjanna (FDA) veitti í febrúar Alvotech leyfi til sölu og markaðssetningar á Simlandi í Bandaríkjunum. Fram kemur að með samningum aukist útbreiðsla hliðstæðunnar í Bandaríkjunum og aðgengi sjúklinga að hagkvæmari líftæknilyfjum.

Haft er eftir Róberti Wessman, stjórnarformanni Alvotech, að félagið sé gríðarlega ánægt með samninginn sem sé í samræmi við væntingar við gerð afkomuspár Alvotech fyrir árið 2024.

„Með þessum samningi mun Alvotech stuðla að auknu aðgengi sjúklinga að hagkvæmari heilbrigðisþjónustu á stærsta lyfjamarkaði heims,“ sagði Róbert Wessman.

Ennfremur segir að engin breyting verði á samstarfi Alvotech og Teva Pharmaceuticals. Teva sé stærsta fyrirtæki á sínu sviði í Bandaríkjunum og markaðssetji líftæknilyfjahliðstæður Alvotech á þeim markaði.

Greint var frá því fyrr í vikunni að FDA hefði einnig veitt Alvotech markaðsleyfi fyrir Selarsdi (ustekinumab-aekn), líf­tækni­lyfja­hlið­stæðu við Stelara. Væri gert ráð fyrir að Selarsdi komi á markað í Bandaríkjunum um eða eftir 21. febrúar 2025 í samræmi við samkomulag við framleiðanda frumlyfsins Stelara.


Tengdar fréttir

Annað markaðsleyfi í höfn í Bandaríkjunum

Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hefur veitt Alvotech markaðsleyfi fyrir Selarsdi (ustekinumab-aekn), líf­tækni­lyfja­hlið­stæðu við Stelara. Gert er ráð fyrir að Selarsdi komi á markað í Bandaríkjunum um eða eftir 21. febrúar 2025 í samræmi við samkomulag við framleiðanda frumlyfsins Stelara






Fleiri fréttir

Sjá meira


×