Erlent

Hafa vit­neskju um mögu­legan dvalar­stað Ís­lendings sem flýr rétt­vísina

Jón Þór Stefánsson skrifar
Dvalarstaður Jóhanns er sagður vera í úthverfi Edmonton-borgar í Alberta-fylki, Kanada.
Dvalarstaður Jóhanns er sagður vera í úthverfi Edmonton-borgar í Alberta-fylki, Kanada. Getty

Lögreglan í borginni Abbotsford í Kanada telur sig hafa vitneskju um mögulegan dvalarstað Íslendings sem hefur flúið réttvísina í borginni vegna ákæru um vörslu og dreifingu á barnaníðsefni. Maðurinn sem um ræðir heitir Jóhann Scott Sveinsson.

Abbotsford er í fylkinu Bresku-Kólumbíu í Kanada, sem er á vesturströnd landsins. Meintur dvalarstaður Jóhanns er í fylki sem liggur við hliðina á Bresku-Kolumbíu, en það er Alberta. Þetta staðfestir lögreglan í Abbotsford í svari við fyrirspurn fréttastofu.

DV fjallaði um mál Jóhanns á dögunum og sagðist miðillinn hafa heimildir fyrir því að hann hefði flúið frá Abbotsford til bæjarins Stoney Plain, sem er í úthverfi Edmonton-borgar í Alberta. Samkvæmt DV fór Jóhann þangað ásamt eiginkonu sinni og barni.

Jóhann er er grunaður um þrjú brot. Tvö þeirra varða innflutning eða dreifingu á barnaníðsefni í júní árið 2022 og janúar á síðasta ári. Síðasta brotið varðar vörslu á barnaníðsefni í maí á síðasta ári. Öll brotin eiga að hafa verið framin í Abbotsford.

Rannsókn á máli Jóhanns hófst í fyrra og var hann handtekinn á meðan á henni stóð, en látinn laus áður, en ákæra var gefin út. Síðan, þegar málið átti að vera tekið fyrir í dómstólum, mætti Jóhann ekki fyrir dóm, en það var í lok síðasta árs.

Í kjölfarið var handtökuskipun gefin út á hendur honum.

Í svari við fyrirspurn fréttastofu útskýrir lögreglan í Abbotsford að handtökuskipunin þurfi að vera framlengd eða útvíkkuð svo hún eigi við um Alberta-fylki. Sú ákvörðun liggi þó fyrst og fremst hjá dómstólum í Kanada, frekar en hjá lögreglunni.

Verði handtökuskipunin útvíkkuð er það síðan á borði lögreglunnar í Abbotsford að upplýsa viðkomandi lögregluyfirvöld um handtökuskipunina, og leggja fram beiðni um að sá handtekni verði afhentur aftur til Bresku-Kólumbíu. Þar verði síðan hægt að sjá til þess að mæti fyrir dóm og réttarhöld í málinu fari fram.

Samkvæmt svari lögreglunnar í Abbotsford starfar hún innan ákveðinnar lögsögu. Í málum sem leiði hana utan lögsögunnar hafi hún þó enn vald til að halda uppi lögum og reglum samkvæmt kanadískum lögum. En í slíkum tilfellum þurfi Abbotsford-lögreglan annaðhvort að fela annarri lögregludeild verkefnið eða leiðbeina annarri deild fyrir verkum.

Í svari lögreglunnar er fullyrt að Jóhann sé grunaður um innflutning, dreifingu og vörslu á barnaníðsefni. Hann sé hins vegar ekki grunaður um framleiðslu á slíku efni.

Í umfjöllun DV segir að Jóhann hafi tjáð eiginkonu sinni að hann sé ekki haldinn barnagirnd, heldur sé hann kynlífsfíkill. „Sú fíkn hafi stigmagnast og leitt hann út á þessar brautir,“ segir í umfjöllun DV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×