Erlent

Borgar­stjóri sakaður um brot gegn dóttur sinni

Jón Þór Stefánsson skrifar
Marty Small borgarstjóri Atlantic City.
Marty Small borgarstjóri Atlantic City. Getty

Marty Small eldri, borgarstjóri Atlantic City í New Jersey-ríki Bandaríkjanna, og eiginkona hans La’Quetta Small, forstöðukona almenningsskóla í borginni, eru grunuð um að beita táningsdóttur sína ofbeldi.

Small-hjónin hafa verið kærð fyrir að stofna velferð dóttur sinnar í hættu. Þetta tilkynnti saksóknari í borginni í yfirlýsingu, en þar eru þau sögð hafa misnotað dóttur sína ítrekað í desember og janúar síðasliðnum. Þá var dóttirin fimmtán og sextán ára gömul.

Borgarstjórinn er sakaður um að hafa í eitt skipti slegið dóttur sína ítrekað í höfuðið með kústi, sem varð til þess að hún missti meðvitund. Hjónin eru jafnframt sökuð um að hafa beitt dótturina barsmíðum og hótunum.

New York Times hefur eftir skrifstofustjóra borgarstjóra að ásakanirnar hafi ekkert með skrifstofuna að gera. Hann vísaði á lögmann á Small.

„Rannsóknin beinist að persónulegum einkamálum, þar með talið áskorunum sem Small borgarstjóri þarf sem faðir að glíma við ásamt eiginkonu sinni,“ sagði lögmaðurinn.

Kæran á hendur hjónunum barst viku eftir að húsleti var gerð á heimili borgarstjórans, þar sem lögregla lagði hald á ótilgreind raftæki. Á blaðamannafundi í kjölfar húsleitarinnar fullyrti Small að ástæðan fyrir henni væri persónulegt mál, ekki væri um spillingu að ræða.

Umrædd húsleit var gerð sama dag og fyrrverandi kosningastjóri Small var kærður fyrir að bregðast ekki við ásökun varðandi brot gegn barni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×