Körfubolti

„Þeir náðu svo­lítið að snúa þessu í sinn leik“

Siggeir Ævarsson skrifar
Pétur Ingvarsson gerði sitt besta til að hvetja sína menn til dáða en varð lítt ágengt
Pétur Ingvarsson gerði sitt besta til að hvetja sína menn til dáða en varð lítt ágengt Vísir/Vilhelm

Pétur Ingvarson, þjálfari Keflavíkur, var með einfalda og beinskeytta skýringu á því hvað hefði klikkað í kvöld þegar liðið tapaði 77-56 gegn Álftanesi, en Keflvíkingar skoruðu aðeins sex stig í fyrsta leikhluta og níu í þeim fjórða.

„Skotin! Klárlega, klárlega“ - svaraði Pétur kíminn. „Þetta er hörku varnarlið og þeir náðu svolítið að snúa þessu í sinn leik. Því fór sem fór. Við þurfum bara að reyna að laga það sem illa fór í kvöld fyrir næsta leik.“

Það má í raun kjarna þennan leik í að Álftanes hafi náð að spila sinn leik og snúið þessu upp í leik sem Keflavík vill alls ekki spila. Hægan leik, mikið hnoð og djöfulgang.

„100 prósent. 100 prósent. Þeir fengu að spila þetta. Miðað við síðasta leik þá var miklu meiri harka leyfð og minna dæmt en það er bara eins og það er. Við þurfum bara að skoða það og finna einhverjar leiðir.“

Blaðamanni fannst línan hjá dómurum ekki skýr í leiknum en Pétur var ekki á sama máli.

„Mér fannst nú eiginlega bara frekar að við vorum bara ekki nógu harðir af okkur. Við getum stjórnað því hvað við erum harðir af okkur og hvernig við stígum út. Við skíttöpuðum frákastabaráttu og skíttöpuðum þessum leik.“ 

„Lélegustu eða bestu dómarar í heimi hefðu ekki getað bjargað okkur úr þessu. Það erum við sem þurfum að bæta okkur. Ef línan er ekki eins þá er það bara eitthvað sem dómararnir þurfa að skoða og reyna að bæta sig í og við bætum okkur í því sem við getum bætt okkur í.“

Tap í kvöld er þó enginn heimsendir, það er bara áfram gakk og allur sá pakki.

„Bæði þessi lið þurfa að vinna þrisvar til að fara áfram og það hefur ekkert breyst en menn eru aðeins nær þessu núna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×