Körfubolti

Teitur vildi líka velja tæknivillutroðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Tristan Helgason sést hér troða boltanum í körfuna í Smáranum í gær.
Arnór Tristan Helgason sést hér troða boltanum í körfuna í Smáranum í gær. S2 Sport

Það var nóg af tilþrifum í fyrsta leik Grindavíkur og Tindastóls í átta liða úrslitum Subway deildar karla í körfubolta.

Subway Körfuboltakvöld gerði í gær upp fyrstu umferð átta liða úrslitanna þar sem Valur, Grindavík, Keflavík og Njarðvík fögnuðu sigri.

Körfuboltakvöld var með miðstöð sína á leik Grindavíkur og Tindastóls og þar var boðið upp á nýjan fastan lið í þessari úrslitakeppni.

„Play leiksins. Við munum alltaf velja það í okkar stóru útsendingum. Það er þetta hérna í samstarfi við flugfélagið Play,“ sagði Stefán Árni Pálsson og sýndi það þegar Julio De Asisse tróð boltanum í hraðaupphlaupi eftir að hafa fengið sendingu af spjaldinu frá Kristófer Breka Gylfasyni.

„Þetta var skemmtilegt. Salt í sár. Það voru reyndar frábær tilþrif í þessum leik,“ sagði Stefán.

„Ég var svo handviss fyrst um að hann hefði klikkað á sniðskotinu en svo fattaði ég eftir á að það getur eiginlega ekki verið,“ sagði Matthías Orri Sigurðarson, sérfræðingur Körfuboltakvölds.

„Ég var reyndar enn hrifnari af þessu þegar Arnór fékk tæknivilluna,“ sagði Teitur Örlygsson, sérfræðingur Körfuboltakvölds.

„Það sýnir líka þetta svægi sem Grindavík var með allan leikinn. Honum var alveg saman um að fá einhverja tæknivillu. Hann vildi bara sýna sig,“ sagði Matthías.

„Tökum það líka,“ sagði Stefán Árni og sýndi tæknivillutroðslu Arnórs Tristans Helgasonar eftir að hafa fengið flugsendingu frá Vali Orra Valssyni.

Það má sjá bæði þessi tilþrif hér fyrir neðan.

Klippa: Play leiksins: Troðslur Grindvíkinga



Fleiri fréttir

Sjá meira


×