Titill bókarinnar verður „Föðurlandsvinur“ og kemur hún út 22. október. Navalní byrjaði að skrifa bókina þegar hann jafnaði sig á eitrun í Þýskalandi árið 2020. Alfred A. Knopf, útgefandi bókarinnar, segir að Navalní hafi haldið skriftunum áfram utan og innan fangelsismúr eftir að hann sneri aftur til Rússlands í janúar 2021.
Navalní lést 47 ára að aldri í afskekktu rússnesku fangelsi þar sem hann afplánaði nítján ára fangelsisdóm sem hann sagði eiga sér pólitískar rætur í febrúar. Hann sakaði stjórnvöld í Kreml um að standa að banatilræðinu við sig árið 2020. Rússnesk stjórnvöld hafna bæði því og að hafa átt þátt í dauða hans í fangelsinu.
Knopf segir að í bókinni fari Navalní yfir stjórnmálaferil sinn, banatilræðin sem hann lifði af og baráttu hans gegn rússneskum stjórnvöld sem hneigjast æ lengra í einræðisátt.
Júlía Navalnaja, ekkja Navalní, segir að bókin sýni óbilandi stuðning hans við baráttuna gegn einræði sem hann fórnaði lífi sínu fyrir.
„Á þessum síðum kynnast lesendur manninum sem ég unni heitt, mann gríðarlegra heilinda og óbifanlegs hugrekkis. Það heiðrar ekki bara minningu hans að deila sögu hans heldur hvetur það aðra til þess að berjast fyrir því sem er rétt og að missa aldrei sjónar á þeim gildum sem skipta virkilega máli,“ segir Navalnaja.