Valsmenn unnu sannkallaðan stórsigur gegn Fram í opnunarleik úrslitakeppninnar og eru því komnir með annan fótinn inn í undanúrslitin.
„Þetta var frábær fyrri hálfleikur og við komum vel inn í þetta. Spiluðum frábæra vörn og Bjöggi var frábær,“ sagði Óskar í leikslok.
„Það gekk flest allt upp sóknarlega. Framararnir voru reyndar að spila fína vörn, en boltinn slysaðist einhvernveginn alltaf inn í dag. Eins og ég hef reyndar sag í viðtölum fyrir þennan leik þá hefur auðvitað ekkert eðlilega mikið gengið á hjá þeim, en þeir eru ekkert að fara að kasta inn handklæðinu. Þetta eru stríðsmenn. Flottir, ungir og efnilegir leikmenn.“
„Rúnar [Kárason] var frábær í dag og þeir eru með frábæra markmenn og frábæra þjálfara þannig að ég veit að þeir munu gera allt sem þeir geta til að ná fram sigri á laugardaginn.“
Þurfa að klára dæmið
Þrátt fyrir þennan gríðarlega örugga sigur segir Óskar að einvígið sé langt frá því að vera búið. Ýmislegt geti gerst í næsta leik og hans menn þurfi að klára dæmið.
„Ef að leikurinn spilast eins og hann gerði í fyrri hálfleik þá er þetta að sjálfsögðu erfitt fyrir þá. En þetta getur spilast alls konar og hver leikur hefur sitt líf. Þessi leikur spilaðist kannski bara eins og best var á kosið fyrir okkur.“
Hann segir einnig að sínir menn hafi nýtt tímann í leik kvöldsins til að prófa nýja hluti þegar ljóst var í hvað stefndi.
„Við vorum að vinna aðeins í 5-1 vörn og þurfum að bæta aðeins í vopnabúrið. Við prófuðum einhverkja hluti og það er gaman að því.“
Hann segist þó ekki hafa áhyggjur af því að sínir menn fari að vanmeta Framliðið.
„Auðvitað var þetta kannski fullmikið. En það var góður undirbúningur og strákarnir gerðu þetta vel. Þeir báru virðingu fyrir Frömurum. Ungir og efnilegir strákar með besta sóknarmann deildarinnar i Rúnari Kára. Ef Rúnar vill skora þá bara skorar hann liggur við. Þeir munu alls ekki kasta inn handklæðinu,“ sagði Óskar að lokum.