Handbolti

Úr­slita­keppni handboltans hefst í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benedikt Gunnar Óskarsson hefur spilað vel með Valsmönnum í vetur.
Benedikt Gunnar Óskarsson hefur spilað vel með Valsmönnum í vetur. Vísir/Diego

Átta liða úrslit Olís deildar karla í handbolta hefjast í kvöld með tveimur leikjum.

Leikir kvöldsins verða á Hlíðarenda annars vegar og í Mosfellsbænum hins vegar.

Valur, sem endaði í þriðja sæti í deildinni, fær þá Fram, sem endaði í sjötta sæti, í heimsókn í N1 höllina á Hlíðarenda.

Leikur Vals og Fram hefst klukkan 18.00 en hann er hluti af tvíhöfða. Strax á eftir þeim leik mætast Valur og Höttur í úrslitakeppni Subway deildar karla í körfubolta.

Seinni leikur kvöldsins í Olís deildinni er hins vegar viðureign Aftureldingar og Stjörnunnar að Varmá en hann hefst klukkan 19.40. Afturelding endaði í öðru sæti í deildinni en Stjörnumenn í því sjöunda.

Hin tvö einvígin fara af stað á morgun í Kaplakrika (FH-KA) og Vestmannaeyjum (ÍBV-Haukar).

Það lið sem fyrr vinnur tvo leiki tryggir sér sæti í undanúrslitum keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×