Sport

Fá ekki bara Ólympíugull heldur líka margar milljónir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gullverðlaunahafar á Ólympíuleikum í sumar fá í fyrsta sinn verðlaunafé að auki.
Gullverðlaunahafar á Ólympíuleikum í sumar fá í fyrsta sinn verðlaunafé að auki. Getty/Buda Mendes

Alþjóða frjálsíþróttasambandið hefur ákveðið fyrst allra að veita peningaverðlaun til þeirra sem vinna gullverðlaun á Ólympíuleikum.

48 munu fá gull um hálsinn í frjálsíþróttakeppni Ólympíuleikanna í París í sumar en þau fá líka einnig væna summu inn á bankareikninginn.

Frjálsar íþróttir eru fyrsta íþróttagreinin sem verður með verðlaunafé á Ólympíuleikum en hingað til hefur heiðurinn af því að vera Ólympíumeistari verið nóg.

Peningurinn mun koma frá þeim styrk sem Alþjóða frjálsíþróttasambandið fær frá Alþjóða Ólympíunefndinni á fjögurra ára fresti.

Sebastian Coe, forseti sambandsins, segir að þetta séu stór tímamót fyrir íþróttina og að þetta sé vottun á því að íþróttafólkið sé það mikilvægasta sem hver íþróttagrein á.

Á áætlun er að hver gullverðlaunahafi í París fái fimmtíu þúsund Bandaríkjadali í verðlaunafé eða sjö milljónir íslenskra króna.

Fjórum árum síðar, á Ólympíuleikunum í Los Angeles 2028, er síðan stefnan sett á það að silfurverðlaunahafar og bronsverðlaunahafar fái einnig verðlaunafé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×