Biden ítrekaði gagnrýni sína á árás Íraelshers á starfsmenn hjálparsamtaka í síðustu viku, þar sem sjö létu lífið. Þá sagðist hann vilja sjá Ísraelsmenn koma á tafarlausu vopnahléi í sex til átta vikur og hleypa neyðaraðstoð inn á Gasa.
Ummæli forsetans fela í sér nokkra stefnubreytingu en hann hefur áður sagt að það sé undir Hamas komið að ganga að skilmálum um vopnahlé og lausn þeirra gísla sem enn eru í haldi samtakanna.
Biden sagðist einnig hafa rætt við stjórnvöld í Sádi Arabíu, Egyptalandi og Jórdaníu og að þau væru reiðubúin til að flytja matvæli inn á Gasa um leið og Ísraelsmenn gæfu græna ljósið.
„Það er engin afsökun fyrir því að sjá fólkinu ekki fyrir heilbrigðisþjónustu og matvælum. Það ætti að gerast núna,“ sagði Biden.
Ísraelsmenn sögðu í gær að 468 flutningabifreiðum hefði verið hleypt inn á Gasa í gær og 419 á mánudag. Um er að ræða mesta aðflutning neyðargagna inn á svæðið frá því að stríðið hófst en talsmenn Sameinuðu þjóðanna segja þetta hins vegar langt í frá nóg.
Þá sagði Samantha Power, yfirmaður USAid, fyrir þingnefnd í gær að hungursneyð ríkti á Gasa en á sama tíma væru fullar matvöruverslanir í tveggja kílómetra fjarlægð. „Við þurfum að fara langt umfram 500 bíla,“ sagði hún.
Þrátt fyrir breyttan tón vestanhafs varðandi hernaðaraðgerðir Ísraels á Gasa hefur Netanyahu greint frá því að áhlaup á Rafah, þar sem yfir milljón manna hefst við, sé á dagskrá. Samningaviðræður um vopnahlé standa yfir en lítið virðist hafa þokast í þeim.