Handbolti

Bjarki og fé­lagar sex stigum frá titlinum eftir stór­sigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bjarki Már Elísson skoraði tvö mörk fyrir Telekom Veszprém í dag.
Bjarki Már Elísson skoraði tvö mörk fyrir Telekom Veszprém í dag. EPA-EFE/Tibor Illyes HUNGARY OUT

Bjarki Már Elísson og félagar hans í Telekom Veszprém eru aðeins þremur sigrum frá því að tryggja sér ungverska meistaratitilinn í handbolta eftir 13 marka stórsigur gegn Budakalasz í dag, 30-43.

Gestirnir í Veszprém höfðu stjórn á leiknum frá upphafi til enda og yfirburðir þeirra í fyrri hálfleik voru í raun ótrúlegir. Veszprém náði tíu marka forskoti um miðjan fyrri hálfleik og liðið skoraði 26 mörk gegn 13 mörkum heimamanna áður en hálfleikshléið gekk í garð.

Gestirnir gátu því leyft sér að gefa örlítið eftir í síðari hálfleik þar sem meira jafnræði var með liðunum. Mest náði Veszprém 17 marka forskoti og sigur þeirra var aldrei í hættu. Lokatölur 30-43.

Bjarki Már skoraði tvö mörk fyrir Veszprém í dag, en liðið trónir á toppi ungversku deildarinnar með fullt hús stiga eftir 21 leik. Liðið er með átta stiga forskot á Pick Szeged sem situr í öðru sæti, en Szeged á tvo leiki til góða. Nú þegar styttist í annan endann á mótinu nægir Veszprém að vinna þrjá af sínum síðustu fimm leikjum til að tryggja sér ungverska titilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×