Körfubolti

Bronny James skráir sig í ný­liða­val NBA deildarinnar

Aron Guðmundsson skrifar
Bronny James með föður sínum, NBA leikmanninum Lebron James. Spila þeir báðir í NBA deildinni á næsta tímabili?
Bronny James með föður sínum, NBA leikmanninum Lebron James. Spila þeir báðir í NBA deildinni á næsta tímabili? Vísir/Getty

Bronny James, sonur NBA goð­sagnarinnar LeBron James ætlar sér að vera á meðal leik­manna í komandi ný­liða­vali NBA deildarinnnar.

Bronny, sem er enn gjald­gengur í há­skóla­boltanum í Banda­ríkjunum ætlar um leið að halda þeim mögu­leika enn opnum en fróð­legt veðrur að sjá hvernig piltinum mun vegna í fram­haldinu.

At­hyglis­vert í meira lagi, ekki bara sökum þess hver faðir hans er og sú stað­reynd að sá er enn spilandi í NBA deildinni með liði Los Angeles Lakers, heldur einnig sökum þeirrar stað­reyndar að fyrir innan við ári síðan fór Bronny í hjarta­stopp á æfingu með liði há­skólans í Suður-Kali­forníu.

Bronny var lagður inn á sjúkra­hús og dvaldi á gjör­gæslu­deild í þrjá daga en var seinna út­skrifaður og gefið grænt ljós, fjórum mánuðum síðar, á að halda á­fram með sinn leik­manna­feril.

„Þetta ár hefur ein­kennst af hæðum og lægðum en bætt mig sem mann­eskju, nemanda og í­þrótta­mann,“ segir Bronny í færslu á sam­fé­lags­miðlum þar sem hann greinir frá á­kvörðun sinni um að skrá sig í ný­liða­val NBA deildarinnar.

Faðir hans, LeBron James, er á meðal bestu leik­manna í sögu NBA deildarinnar og verður fróð­legt að sjá hvort að feðgarnir fái tæki­færi til að annað hvort spila saman eða á móti hvor öðrum í deildinni á næsta tíma­bili.

LeBron hefur í það minnsta áður lýst yfir löngun sinni að spila við hlið sona sinna í NBA áður en leik­manna­ferlinum lýkur.

Ný­liða­val NBA deildarinnar fer fram dagana 26.-27.júní síðar á þessu ári.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×