Íslenski boltinn

„Ekki eitt einasta færi þegar við vorum einum fleiri“

Hinrik Wöhler skrifar
Glæsilegur Arnar Grétarsson skartaði skemmtilegum skóbúnaði á hliðarlínunni í kvöld.
Glæsilegur Arnar Grétarsson skartaði skemmtilegum skóbúnaði á hliðarlínunni í kvöld. vísir / hulda margrét

Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, var vonsvikinn að hafa ekki náð að kreista fram sigur á Víkingsvellinum í kvöld.

„Þetta er bara svekkjandi, þetta var lokaður leikur og þá sérstaklega í síðari hálfleik. Þetta var jafn leikur en ekki mikið um opin færi. Mér fannst Víkingar á fyrsta korterinu í seinni hálfleik mun öflugri en við, með sterka pressu á okkur. Við gáfum þeim nokkur dauðafæri,“ sagði Arnar eftir leikinn í kvöld.

„Svo breytist leikurinn við rauða spjaldið og þar erum við frekar hægir að hreyfa boltann. Ég er svekktur því það voru rúmar 20 mínútur eftir og við vorum í basli að láta boltann ganga. Vissulega er veðrið ekki að hjálpa, það hægir á öllu þegar er kalt og boltinn fer ekki hratt en við hefðum getað gert betur. Svo er auðvitað alltaf svekkjandi að tapa í vító, þetta er í annað skiptið á stuttum tíma,” bætti Arnar við en liðið féll úr leik í undanúrslitum Lengjubikarsins á móti ÍA í vítaspyrnukeppni.

Valsmenn voru í vandræðum með að skapa sér álitleg marktækifæri þegar þeir voru einum fleiri og Arnar vildi sjá sína leikmenn nýta stöðuna betur.

„Við hefðum átt að gera það betur, við eigum að geta skapað betri stöður og koma okkur í betri færi. Við sköpuðum okkur ekki eitt einasta færi þegar við vorum einum fleiri, ég man allavega ekki eftir því. 

Allavega tók það okkur dágóðan tíma að taka stjórnina eftir að við vorum einum fleiri. Eftir við gerðum það þá fannst mér við geta gert aðeins betur.“

Eftir sex daga koma Skagamenn í heimsókn á Hlíðarenda og er markmiðið skýrt í fyrsta leik í Bestu deildinni.

„Staðan er fín á hópnum og auðvitað hefðum við viljað fá aðeins betri frammistöðu í kvöld. Við spiluðum á móti fínu liði, í jöfnum leik og töpum svo í vító. Við þurfum bara að núllstilla og sækja þrjú stig í fyrsta leik og það er bara næsta verkefni,“ sagði Arnar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×