Körfubolti

Martin og fé­lagar fengu skell gegn Fenerbahce

Siggeir Ævarsson skrifar
Martin skoraði tólf í kvöld en það dugði skammt
Martin skoraði tólf í kvöld en það dugði skammt vísir/Getty

Martin Hermannsson og félagar í Alba Berlin sáu aldrei til sólar í kvöld þegar liðið sótti tyrkenska liðið Fenerbahce heim í EuroLeague keppninni en lokatölur leiksins urðu 103-68.

Heimamenn settu tóninn strax í fyrsta leikhluta þar sem þeir skoruðu 34 stig gegn aðeins 18 stigum Alba Berlin. Þeir tóku svo álíka sprett í þriðja leikhluta sem fór 31-13 og úrslitin löngu ráðin þrátt fyrir að tíu mínútur væru eftir af körfubolta, staðan 83-53 Fenerbahce í vil.

Martin var næsta stigahæstur í liði Alba Berlin, skoraði tólf stig og bætti við tveimur stoðsendingum, en enginn leikmaður liðsins gaf fleiri en tvær slíkar í kvöld.

Lið Alba Berlin hefur ekki riðið feitum hesti frá flestum leikjum sínum í Euroleague þetta tímabilið og aðeins landað fimm sigrum í 32 leikjum og er liðið neðst af þeim 18 liðum sem taka þátt í keppninni.

Fenerbahce er aftur á móti í ágætis málum í 6. sæti en þetta var 20. sigur liðsins í keppninni. Á toppnum trónir lið Real Madrid sem hefur haft nokkra yfirburði, með 25 sigra í 31 leik.

Leikurinn var alls ekki tíðindalaus þrátt fyrir yfirburði heimamanna en hinn bandaríski Nigel Hayes, leikmaður Fenerbahce, setti stigamet í EuroLeague þegar hann varð fyrsti leikmaðurinn til að skora 50 stig í leik.

Þess má til gamans geta að aðeins einn annar leikmaður Fenerbahce skoraði yfir tíu stig í kvöld og Hayes hefur að meðaltali skorað um 13 stig í leik í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×