Körfubolti

„Héldum bara á­fram að berja á þeim“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elisa Pinzan skilaði 15 stigum fyrir Keflavík í kvöld.
Elisa Pinzan skilaði 15 stigum fyrir Keflavík í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Elisa Pinzan, leikmaður Keflavíkur, var eðlilega í skýjunum eftir að liðið tryggði sér bikarmeistaratitil kvenna í körfubolta með stórsigri gegn Þór Ak. í kvöld. Hún segir það þó ekki skipta máli hversu stór sigurinn er.

„Þetta er frábær tilfinning. Sigur er sigur og í svona umhverfi þar sem svona mikið af fólki mætir til að styðja kvennakörfuboltann áfram er ótrúlegt.“

Hún segir að lykillin að sigrinum hafi verið að mæta Þórsliðinu af ákefð, enda hafi Þórsarar mætt með mikið sjálfstraust til leiks eftir sterkan og óvæntan sigur gegn Grindavík í undanúrslitum.

„Við þurfum að vera ákveðnar í vörninni og láta finna fyrir okkur. Mér fannst við klárlega gera það, sérstaklega í fyrsta leikhluta. Svo þurftum við bara að halda áfram að berjast og byggja upp okkar forskot.“

Keflavíkurliðið stakk svo endanlega af í þriðja leikhluta, en Elisa segir leikplanið ekki hafa breyst mikið milli hálfleika.

„Við héldum bara áfram að berja á þeim því þær voru aldrei að fara að hætta. Þær eru með frábært lið með mikið hjarta og þær eru með mikið af góðum leikmönnum. Við vissum að þær myndu ekki hætta og við þurftum bara að spila okkar leik, einbeita okkur að okkur og það er það sem við gerðum,“ sagði Elisa að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×