Körfubolti

Opinn fyrir öllu á Ís­landi

Aron Guðmundsson skrifar
Baldur Þór Ragnarsson á hliðarlínunni á sínum tíma sem þjálfari Tindastóls í efstu deild karla hér á landi
Baldur Þór Ragnarsson á hliðarlínunni á sínum tíma sem þjálfari Tindastóls í efstu deild karla hér á landi Vísir/Bára Dröfn

Körfu­bolta­þjálfarinn Baldur Þór Ragnars­son, sem starfar sem þjálfari hjá þýska liðinu Ratiop­harm í Ulm, segir endur­komu í ís­lenska boltann klár­lega vera val­mögu­leika fyrir sig. Baldur hefur verið orðaður við þjálfara­stöður hjá nokkrum ís­lenskum liðum undan­farið.

Baldur, sem getið hefur af sér gott starf í þjálfun, tók stökkið út til Þýska­lands árið 2022 en hann var á þeim tíma aðal­þjálfari karla­liðs Tinda­stóls. Hann hafði stýrt Stólunum frá árinu 2019 og meðal annars komið þeim alla leið í úr­slita­ein­vígi efstu deildar tíma­bilið árið 2022. Þá hafði hann einnig starfað sem þjálfari Þórs Þor­láks­hafnar og verið í teymi ís­lenska lands­liðsins.

Orð­rómarnir varðandi mögu­lega heim­komu Baldurs í ís­lenska boltans hafa kannski mest snúið að liði ríkjandi Ís­lands­meistara Tinda­stóls. Þjálfari liðsins, Pa­vel Er­molinskij, er kominn í ó­tíma­bundið veikinda­leyfi og ó­víst á þessum tíma­punkti hvort hann muni yfir höfuð snúa aftur í þjálfara­stöðu liðsins.

Þú hefur verið orðaður við þjálfara­stöður hér heima. Þitt gamla lið Tinda­stóll er í smá kröggum núna. Fyrir Baldur, er það mögu­leiki að snúa aftur heim og taka að sér svona gigg?

„Þetta er sér­stakur tími fyrir Tinda­stól. Sér­stakar og erfiðar að­stæður. Auð­vitað er ég opinn fyrir öllu á Ís­landi. Hvað það er? Ég veit það ekki. Þetta er dá­lítið snemmt. Liðin eru enn að spila. Það á margt eftir að koma í ljós. Bæði á Sauð­ár­króki sem og á fleiri stöðum. Bara hvernig hlutirnir þróast. Það er bara best að fara var­lega í öllum þessum málum til að reyna fá allt upp á borðið og vita hvernig málin eru að þróast. Þannig að allt sé rétt og eðli­legt.“

„Endur­koma til Ís­lands er val­mögu­leiki fyrir mig. Klár­lega. Hvaða lið það er? Maður vill taka við liði hjá fé­lagi sem er með skýra stefnu, leggur mikið í hlutina og vill vera með gott lið. Það kemur bara í ljós ef að það er eitt­hvað lið sem passar við það sem maður er sjálfur að hugsa. Þá er það val­mögu­leiki að koma heim.“

„Yrði einhver galin atburðarás að eiga sér stað“

En segjum sem svo að kallið kæmi frá fé­lagi í Subway deildinni á næstu dögum og Baldur beðinn um að taka stökkið og taka við um­ræddu liði strax. Myndi það ganga upp fyrir hann?

„Málið er bara að ég er á samningi hérna úti í Þýska­landi út yfir­standandi tíma­bil. Tíma­setningin að koma heim akkúrat núna væri skrítin. Liðið sem ég þjálfa núna á einn leik eftir í deildar­keppninni og þar erum við í öðru sæti. Svo tekur við úr­slita­keppni hjá okkur. Fyrir minn al­þjóð­lega feril væri það nær dauða­dómi að stökkva bara um leið frá þessu.

Ég þarf að þetta lið hafi góða sögu af segja af okkar sam­starfi svo ég eigi mögu­leika á því að eiga von á fleiri tæki­færum er­lendis seinna meir. Hve­nær sem það yrði. Að hætta verk­efni á þessum tíma­punkti væri ekki vel séð. Ég er alltaf að fara klára það sem ég skrifaði upp á að gera.

Það þyrfti alla­vegana ein­hver galin at­burða­rás að eiga sér stað ef eitt­hvað annað ætti að gerast. Það þyrfti að borga mig út hér, greiða liðinu ein­hvern pening fyrir mig og semja við for­ráða­menn fé­lagsins að þetta myndi gerast. Ég er ekki að sjá það raun­gerast á þessum tíma­punkti.“

Sér hlutina í öðru ljósi

Baldur Þór býr úti í Þýska­landi með unnustu sinni Rakel Rós Ágústs­dóttur og saman eiga þau einn strák. Maður skynjar það á Baldri að bæði hann og Rakel væru til í að vera nær fjöl­skyldum sínum hér heima á Ís­landi.

„Það er alveg gaman að vera í kringum fjöl­skyldu og vini. Maður sér það alveg extra vel þegar að maður er búinn að vera hérna úti yfir lengri tíma. Maður sér hlutina í öðru ljósi. En á sama tíma eru þetta bara svipaðar að­stæður og komu upp þegar að ég tók stökkið út á sama tíma.

Ef ég fæ allt í einu at­vinnu­til­boð frá ein­hverju fé­lagi í Meistara­deildinni, þá er erfitt að segja nei við því. Maður reynir bara að ein­beita sér að því verk­efni sem maður er með í höndunum núna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×