Sport

Túlkur stór­stjörnunnar stal af honum hundruðum milljóna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shohei Ohtan hlustar hér á Ippei Mizuhara túlka fyrir sig á blaðamannafundi.
Shohei Ohtan hlustar hér á Ippei Mizuhara túlka fyrir sig á blaðamannafundi. AP/Lee Jin-man

Bandaríska hafnarboltaliðið Los Angeles Dodgers hefur rekið túlkinn Ippei Mizuhara úr starfi eftir að upp komst um stórfelldan þjófnað hans.

Mizuhara starfaði sem túlkur japönsku stórstjörnunnar Shohei Ohtani. Þeir höfðu lengi verið vinir og hann hafði túlkað fyrir hann þegar leikmaðurinn mætti til Bandaríkjanna. Það hefur verið mikið látið með Ohtani enda frábær leikmaður sem getur bæði slegið og kastað.

Shohei Ohtani er risastjarna í hafnaboltanum en hann hefur verið valinn mikilvægasti leikmaður MLB deildarinnar tvisvar sinnum á síðustu þremur árum. Hann fékk þau verðlaun á síðasta tímabil og fékk einnig risasamning.

Hann færði sig nefnilega yfir frá Los Angeles Angels til Los Angeles Dodgers fyrir tímabilið í ár eftir að hann samþykkti risatilboð frá Dodgers. Shohei fær sjö hundruð milljónir dollara fyrir tíu ára samning eða meira en 95 milljarða íslenskra króna.

Það breytir ekki því að enginn vill láta stela af sér pening.

Fjölmiðlar fóru að forvitnast um millifærslur frá bankareikningi Ohtani til veðbanka. Nú hefur Mizuhara verið rekinn og bandarískir fjölmiðlar fjalla um það að hann hafi stolið mörgum milljónum dollara frá leikmanninum.

Talsmaður Ohtani sagði fyrst við ESPN að hafnarboltamaðurinn hafi verið að hjálpa Mizuhara með veðmálaskuldir en svo kom annað hljóð í skrokkinn. Lögfræðingar höfðu samband við bandaríska fjölmiðilinn og sögðu að Ohtani hafi verið fórnarlamb mikils þjófnaðar.

Hinn 39 ára gamli er talinn hafa stolið að minnsta kosti 4,5 milljónum dollara af Ohtani sem samsvarar 616 milljónum króna.

Mizuhara talaði fyrst um að Ohtani hafi verið að gera sér vinargreiða en dró svo í land með það og viðurkenni að hafnarboltastjarnan hafði ekki vitað um veðmálafíkn eða veðmálaskuldir hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×