Innlent

Gera til­raunir með skafrenningsmæli

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Harpa Grímsdóttir deildarstjóri ofanflóða á Veðurstofu Íslands segir verið að reyna fjölmörg mælitæki til að bæta vöktun.
Harpa Grímsdóttir deildarstjóri ofanflóða á Veðurstofu Íslands segir verið að reyna fjölmörg mælitæki til að bæta vöktun. Vísir/Einar

Tilraunir hafa verið gerðar með skafrenningsmæli á Steingrímsfjarðarheiði í vetur en vonir standa til að mælirinn komi til með að nýtast við að meta snjóflóðahættu.

Snjóflóðasetur Veðurstofu Íslands á Ísafirði hefur í vetur verið að gera tilraunir með skafrenningsmæli á Steingrímsfjarðarheiði.

„Við vonumst þá til þess að hann gefi okkur betri upplýsingar en við höfum núna um það magn sem er á ferðinni og skefur af fjallstoppum og niður í upptakasvæði snjóflóða. Þannig að hann geti hjálpað okkur við að meta þar af leiðandi snjóflóðahættu,“ segir Harpa Grímsdóttir deildarstjóri ofanflóða á Veðurstofu Íslands.

Skafrenningur sé einn af meginþáttunum í snjóflóðahættu á Íslandi og því til mikils að vinna með að fylgjast vel með honum.

„Þegar við erum með skafrenning þá getur snjór safnast svo hratt fyrir í upptakasvæðum og þá verða snjóalög óstöðug og snjóflóð geta farið af stað.“

Það kemur ekki í ljós hversu vel mælirinn virkar fyrr en í vor en Harpa segir mikla grósku í þróun mælitækja til að vakta ofanflóð. Þá sé líka verið að bæta aðferðir til að nýta gögn úr gervitunglum við vöktun. Allt þetta komi til með að nýtast vel á næstu árum.

„Það er gert ráð fyrir því með hlýnandi loftslagi að hitastigið hækki aðeins. Úrkoma aukist. Við fáum fleiri svona hlákutímabil að vetrarlagi og lengri og við fáum tímabil með ákafari rigningu en áður og allt þetta getur leitt til þess að krapaflóðum fjölgi sérstaklega og skriðum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×