Hjá Reykjavíkurborg er starfsfólk um ellefu þúsund talsins. Harpa Þorsteinsdóttir, verkefnastjóri lýðheilsumála hjá borginni, segir Mottumars dæmi um hreyfiátak sem ekki er hægt að sleppa því að taka þátt í:
„Við erum ekki síst að benda á hvernig fólk getur aukið hreyfingu með litlu hlutunum. Því allt telst til og það er alls ekki svo að það þurfi að gleypa fílinn þótt okkur takist vel til að hreyfa okkur meira yfir vinnudaginn.“
Þriðjungur krabbameinstilvika er lífstílstengd og því er megináhersla Mottumars þetta árið hreyfing. Þátttaka vinnustaða er eitt af einkennum Mottumars og af því tilefni fjallar Atvinnulífið um málefni honum tengdum í gær og í dag.
Skemmtileg dæmi starfsfólks
„Það vita allir að hreyfing er góð en staðreyndin er þó sú að við erum mis læs á okkar eigin heilsu,“ segir Harpa, en meðal átaksverkefna sem borgin hefur til dæmis tekið þátt í er að efla heilsulæsi fólks, verkefni sem SÍBS stóð fyrir.
Almennt segir Harpa að borgin reyni að taka þátt í öllum sambærilegum verkefnum. Enda sé vinnustaðurinn einn sá fjölmennasti á landinu og geti því verið fordæmisgefandi.
„Skilin á milli þess að virkja starfsfólk eða íbúa í hreyfingu eða öðrum heilsutengdum málum eru oft óljós. Því starfsfólk vinnur víða náið með íbúum og eru þess að auki oft fólk búsett líka í borginni, þannig að hvar liggja mörkin?“
Hún segir starfið sitt afar fjölbreytt en rauði þráðurinn sé að efla lýðheilsu eins og best verður á kosið, sem oftast og mest.
Enda geti það verið ótrúlega skemmtilegt. Til dæmis á vinnustöðum.
Ég veit til dæmis um vinnustað þar sem þær eru nokkrar samstarfskonur saman með Plankavinafélagið.
Sem gengur þá út á að planka saman í hádeginu.
Og hjá þeim er mottóið einfaldlega: „Þar sem fleiri komast að en vilja““
segir Harpa og brosir.
„Síðan megum við ekki gleyma því að leika okkur. Því það felst ótrúlega mikil hreyfing í því að leika með börnum, sem fyrir marga getur verið tilvalin leið til að auka á hreyfinguna.“
Annað dæmi eru stuttir göngutúrar.
„Ég veit til dæmis um tvö sem starfa í ráðhúsinu sem nýta hádegið og skella sér í göngu í kringum tjörnina nánast alla daga.“
Enn eitt dæmið er að skapa skemmtilega stemningu í kringum árangurinn sem næst.
„Einn vinnufélagi minn ákvað fyrir nokkru að auka sína hreyfingu með því að fara að hjóla í vinnuna alltaf þegar færi gæfist til. Hann keypti sér því hjól og fór fljótlega að tala um að honum fyndist þetta miklu minna mál en hann hefði haldið í fyrstu og hann verðlaunar sig með kökusneið eftir hverja 100 km“ segir Harpa og bætir við:
„Í dag kemur hann með köku í vinnuna eftir hverja 1000 kílómetra sem hann hjólar. Sem er alltaf jafn skemmtilegt.“

Góðu ráðin: Þurfum ekki að gleypa fílinn
Harpa segir að eitt af því sem skipti mjög miklu máli á vinnustöðum sé aðstaðan.
„Til dæmis sturtuaðstaða sem fólk hefur aðgang að og getur nýtt sér ef það er að taka góða hreyfingu yfir vinnudaginn.“
Þá séu borð sem hægt er að hækka eða lækka af hinu góða.
Munurinn á milli kynja hvað varðar hreyfingu er til dæmis ekki mjög mikill. En getur verið mjög mikill eftir því við hvað fólk starfar.
Kyrrsetufólk sem vinnur við tölvur allan daginn er hópur sem þarf að huga sérstaklega að og reyna að virkja.“
Sem Harpa segir ekkert endilega þurfa að vera flókið.
„Við þurfum ekki að hugsa um meiri hreyfingu sem einhverja breytingu sem felur í sér að ætla að gleypa fílinn í heilu lagi. Hér leggjum við því sérstaka áherslu á að benda á litlu einföldu hlutina. Því þeir telja svo mikið yfir allan daginn.“
Og Harpa nefnir nokkur góð dæmi:
- Að taka stigann frekar en lyftuna
- Að passa sig á því að standa reglulega upp yfir daginn
- Að hækka eða lækka borð, til dæmis alltaf eftir að þú sækir þér kaffi
„Það er oft talað um hálftíma til sextíu mínútur á dag en til þess að ná því, er hægt að horfa til svo margs. Ef þú til dæmis tekur stigann þrisvar sinnum á dag ertu strax kominn með korter,“ segir Harpa og bætir við:
„Við þurfum alls ekkert að ímynda okkur að það að hreyfa okkur meir þýði eitthvað fjallahlaup í klukkutíma. Með því að horfa á alla þessa litlu og jafnvel einföldu hluti á daginn getum við náð fínum árangri. Og síðan minni ég líka á hrósið. Að vera dugleg að gefa okkur sjálfum gott klapp á öxlina þegar vel tekst til og það sama á við um að hrósa vinnufélögunum okkar.“
Harpa segir borgina hafa ákveðið að taka virkan þátt í Mottumars enda séu sem flestir vinnustaðir hvattir til að gera það.
Hér má sjá frétt frá liðinni viku þar sem starfsfólk Reykjavíkurborgar í Höfðaborg var kallað út til að taka þátt í nokkrum skemmtilegum æfingum með Gunna og Felix.