Kostnaður vegna þessa fellur að stærstum hluta á Vestra en bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur ákveðið að veita knattspyrnudeild félagsins styrk upp á 4,8 milljónir króna. Það er kostnaðurinn við kaup á 30.000 metrum af hitalögnum.
Vestramenn þurfa hins vegar að sjá um innkaupin, flutningskostnað, niðurlögn og annan kostnað sem af þessu hlýst, og bæjarráð segir í fundargerð sinni að með styrknum fylgi ekkert loforð um fjárveitingu vegna uppsetningar varmadælu eða til rekstrar kerfisins.
Komi til með að kosta yfir fimmtíu milljónir
Samkvæmt minnisblaði frá Axel R. Överby, sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar, má áætla að upphafskostnaður við að koma fyrir hitalögnum sé um 24,6 milljónir króna.
Þar er ekki gert ráð fyrir stýringum, tengikistum, varmadælum eða frostlegi á kerfið, en sagt að leiða megi líkum að því að hitakerfið í heild kosti um 50-55 milljónir króna. Þá er ótalinn árlegur rekstrarkostnaður.
Samúel S. Samúelsson, formaður meistaraflokksráðs karla hjá Vestra, segir í samtali við Vísi að það muni ekki stöðva Vestramenn og að hitalagnir verði lagðar undir nýja völlinn. Það er í takti við einlæga ósk Davíðs Smára, þjálfara Vestra, sem hann viðraði í nýjasta þætti Lengsta undirbúningstímabils í heimi.
Jóhann Birkir Helgason, útibússtjóri Verkís á Ísafirði, segir lagningu hitalagna ekki koma til með að tefja fyrir opnun nýja vallarins nema hugsanlega um fáeina daga. Hins vegar sé útlit fyrir að bíða þurfi fram í apríl eftir því að frost fari úr jörðu og hægt sé að hefja verkið, sem taka muni að lágmarki þrjár vikur.
Vestri spilar sinn fyrsta leik í Bestu deildinni 7. apríl, gegn Fram á útivelli, en fyrsti heimaleikurinn er áætlaður gegn KA 20. apríl.
Ef heimavöllur Vestra, sem heita mun Kerecis-völlurinn eftir stærsta styrktaraðila félagsins, verður ekki tilbúinn í tæka tíð koma Vestramenn til með að þurfa að semja um færslu heimaleikja eða skipti við mótherja sína.