Um er að ræða niðurstöður rannsókna IQAir, fyrirtækis í Sviss sem sérhæfir sig í vörnum gegn loftmengun. Rannsóknin náði til 134 ríkja og byggði á gögnum úr yfir 30 þúsund mælistöðvum um allan heim.
Það sem var til skoðunar var magn PM2,5 smáagna sem berast meðal annars út í andrúmsloftið frá umferð og gróðureldum. Ríkin sjö voru þau einu þar sem magn þessara agna var innan viðmiða WHO.
Mengunin var mest í Pakistan, þar sem magn PM2,5 var fjórtán sinnum meira en viðmið WHO kveða á um en næst á eftir komu Indland, Tajikistan og Búrkína Fasó. Kanada kom verst út meðal Vesturlanda en það er sagt mega rekja til gríðarmikilla gróðurelda sem geisuðu í fyrra.
Áætlað er að um sjö milljónir manna látist á ári hverju sökum loftmengunar og ástandið er verst í ríkjum þar sem menn neyðast til að reiða sig á „óhreina orkugjafa“ á borð við kol.
Þrátt fyrir viðmið WHO benda rannsóknir til þess að það sé í raun ekkert sem kalla megi „öruggt magn“ PM2,5 agna í andrúmsloftinu, þar sem aðeins örlítið magn auki fjölda sjúkrahúsinnlagna vegna öndunarfæra- og hjartasjúkdóma.