Lífið

Grímur leitar að bræðrum sínum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, vonast til að hafa uppi á bræðrum sínum.
Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, vonast til að hafa uppi á bræðrum sínum. Vísir/Vilhelm

Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, reynir þessa dagana að komast í samband við tvo karlmenn sem hann telur vera bræður sína. Hann biður alla sem hafa tengingar í Wales að deila FB-færslu sinni í þeirri von að hún nái til skyldmenna sinna.

Grímur segist í færslunni hafa komist að því fyrri tólf árum að faðir hans væri ekki líffræðilegur faðir hans. Annað sjokk hafi verið handan við hornið þegar hann komst að því að líffræðilegur faðir hans væri ekki á Íslandi.

Síðan þá hafi hann reynt að sætta sig við þá staðreynd en nú sé kominn tími til að bregðast við.

Grímur segir í færslu sem hann hvetur til deilinga frá tveimur mönnum sem að líkindum eru bræður hans. Annars vegar Mark G. Parsons, fæddur 1958, og hins vegar Timothy C. Parsons fæddur 1960 í Pontypridd í Wales. Grímur segir að faðir þeirra, David Gwyn Parsons, fæddur 1. maí 1933 sé líffræðilegur faðir hans.

„Ef upplýsingar mínar eru réttar lést hann árið 1981,“ segir Grímur sem hefur unnið töluverða vinnu við að rekja ættir sínar til Bretlandseyja eins og sjá má í færslunni að neðan. Þar má sjá myndir af bræðrunum.

„Síðustu mánuði hef ég verið að reyna að rekja slóð þessa fólks, líffræðilegrar fjölskyldu minnar, en virðist kominn á endastöð. Því hef ég ákveðið að greina opinberlega frá leit minni í þeirri von að fólk í Wales eða annars staðar sé tilbúið að rétta mér hjálparhönd.“

Hann biður fólk með tengingar í Wales sérstaklega um að hjálpa við leitina að fjölskyldu sinni. Ekki stendur á viðbrögðum og hefur fjöldi Íslendinga með tengingar til Bretlandseyja tekið beiðninni vel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×