Íslenski boltinn

Kveðja Gylfa Þór sem er á leið í Val

Aron Guðmundsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson sneri aftur í boltann á síðasta ári. Nú virðist hann á heimleið í Bestu deildina
Gylfi Þór Sigurðsson sneri aftur í boltann á síðasta ári. Nú virðist hann á heimleið í Bestu deildina Vísir/Vilhelm

Danska úrvalsdeildarfélagið Lyngby hefur gefið frá sér tilkynningu þar sem að greint er frá því að Gylfi Þór Sigurðsson muni ekki snúa aftur til félagsins er hann hefur jafnað sig á meiðslum. Gylfi Þór er við það að skrifa undir samning við Bestu deildar lið Vals.

Gylfi Þór hefur verið við æfingar með Val á Spáni, eftir að hafa sinnt þar sjálfur endurhæfingu sinni eftir meiðsli. Hann fékk samningi sínum við danska félagið Lyngby rift í janúar, til að sinna endurhæfingunni án þess að þiggja laun, en samningurinn átti að gilda fram á sumar.

Andreas Byder, yfirmaður knattspyrnumála hjá Lyngby sagði eftir þau tíðindi að félagið og Gylfi Þór hefðu gert með sér heiðursmannasamkomulag þess efnis að hann myndi snúa aftur til Lyngby þegar að hann væri búinn að ná sér af meiðslunum.

Nú er þó ljóst að Gylfi Þór mun ekki snúa aftur til liðsins. Hann hefur átt í viðræðum við Bestu deildar lið Vals sem hafa gengið mjög vel. 

Börkur Edvardsson, formaður knattspyrnudeildar Vals, fullyrti hins vegar við Vísi í gær að viðræðum sé ekki lokið og að Gylfi hafi enn ekki skrifað undir samning við Hlíðarendafélagið. Það ku þó aðeins vera tímaspursmál hvenær það gerist.

Í tilkynningu Lyngby frá því í morgun, um endanlegt brotthvarf Gylfa Þórs frá félaginu er eftirfarandi haft eftir Gylfa:

„Ég kann virkilega vel að meta það tækifæri sem Lyngby gaf mér til þess að snúa aftur í fótboltann. Ég mun verða þeim ævinlega þakklátur fyrir það. Það skiptir mig miklu máli og ég mun aldrei gleyma móttökunum sem ég fékk frá stuðningsmönnum félagsins á fyrsta heimaleiknum. Ég óska félaginu alls hins besta í framhaldinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×