Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans kynnti skýrslu sína um stöðu efnahagslífsins á fundi í morgun. Þar kom fram að peningastefnan með hækkandi vöxtum hefði náð að hægja mikið á hagkerfinu og hagvexti.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segist vona að nýgerðir kjarasamningar og sú stefna sem þeir mörkuðu með hófsömum launahækkunum á næstu fjórum árum, verði innleg til minni verðbólgu og lækkunar vaxta.

„Þetta eru góð tíðindi. Þetta eru samningar til lengri tíma. Mér finnst hugsunin í samningunum líka vera góð. En þeir eru náttúrulega flóknir. Margir þættir inni í þeim eins og tillaga ríkisins. Einnig eru ólíkar stéttir að koma saman. Þannig að við höfum kannski ekki alveg heildaryfirsýn yfir samningana eins og sakir standa,“ segir Ásgeir.
En seðlabankastjóri og félagar hans í peningastefnunefnd hafa viku til að melta samningana þar til sú nefnd tekur ákvörðun um meginvexti bankans, sem greint verður frá eftir viku. Við undirritun samninga breiðfylkingarinnar í síðustu viku sagði Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins að samningarnir væru eftir forskrift Seðlabankans og þess vegna væri boltinn nú kominn þangað.
„Það er alveg rétt. Boltinn er hjá okkur. Að ná niður þessari verðbólgu og ná verðstöðugleika. Það er bara sú ábyrgð sem Seðlabankinn mun axla í þessu,“ segir seðlabankastjóri.
Mjög hratt hefur dregið úr umsvifum í íslensku efnahagslífi undanfarna mánuði og hagvöxtur minnkað mikið. Ásgeir segir hagvöxt hafa samanlagt verið tuttugu prósent á undanförnum þremur árum, þar af níu prósent árið 2022. Nú stefni hans hins vegar í 1,9 prósent á þessu ári.
Í yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar sem seðlabankastjóri flutti í morgun sagði hann fjármálakerfið hins vegar standa á traustum fótum.
„Skuldahlutföll hafa almennt lækkað og eru nú lægri en þau hafa verið um árabil. Eiginfjárstaða heimila hefur batnað samhliða hækkun húsnæðisverðs og lækkun skulda að raunvirði. Á sama tíma hefur greiðslubyrði lánþega þyngst en vanskil eru þó enn lítil,“ sagði Ásgeir Jónsson.