Íslenski boltinn

Draumastarf Arnars er í Aþenu

Sindri Sverrisson skrifar
Arnar Grétarsson er að fara inn í sitt annað tímabil sem þjálfari Vals.
Arnar Grétarsson er að fara inn í sitt annað tímabil sem þjálfari Vals. vísir/Diego

Arnar Grétarsson ætlar sér að gera Valsmenn að Íslandsmeisturum í fótbolta í sumar. Hann dreymir hins vegar einnig um að taka einn daginn við gríska stórliðinu AEK Aþenu.

Þetta kom í spjalli Baldurs Sigurðssonar við Arnar í nýjasta þættinum af Lengsta undirbúningstímabili í heimi, sem sýndur var á Stöð 2 Sport í gær.

Arnar átti langan og farsælan feril sem leikmaður, og lék 71 A-landsleik. Þessi 52 ára gamli þjálfari var svo yfirmaður íþróttamála hjá AEK 2010-2012, og einnig hjá Club Brugge í Belgíu 2013-2014, áður en hann fór út í þjálfun. Hann hefur svo stýrt Breiðabliki, Roeselare í Belgíu, KA og loks Val. En er hann búinn að „upplifa drauminn“?

„Ef ég gæti þá myndi ég elska að fara til Grikklands og þjálfa mitt lið, AEK. Það er einhver svona draumur, af því að ég hef spilað þarna. Þetta eru geggjaðir stuðningsmenn, og okkur þótti rosalega gott að búa þarna,“ sagði Arnar.

Eins og fyrr segir kynntist hann AEK og grísku höfuðborginni Aþenu vel, fyrst sem leikmaður í lok síðustu aldar og svo þrjú ár sem yfirmaður íþróttamála.

„Eftir að hafa kynnst fólkinu þarna, og nú eru þeir komnir á nýjan og geggjaðan völl, þá yrði það alveg frábært [að fá að taka við AEK]. Ég er enn þá með metnað til þess og langar að fara út í þjálfun. Mig langar að prófa að fara í stærra umhverfi,“ sagði Arnar en hann kveðst eiga verk óunnið á Íslandi fyrst:

„Ég er ekki búinn að vinna alvöru titil hér. Ég er alltaf að narta í hælana og veit alveg að ég er að gera mjög góða hluti, en ég hef samt ekki náð þeim stóra. Ég er þess vegna með það inni í mér að mig langar að vinna eitthvað hér. Taka stóra titilinn. Svo langar mig að fara út.“

Klippa: LUÍH: Arnar Grétars um draumastarfið



Fleiri fréttir

Sjá meira


×