Íslenski boltinn

Blikar enduðu efstir og fara á­fram

Sindri Sverrisson skrifar
Kristófer Ingi Kristinsson skoraði skallamark fyrir Blika í kvöld.
Kristófer Ingi Kristinsson skoraði skallamark fyrir Blika í kvöld. vísir/Hulda Margrét

Breiðabliki tókst að tryggja sér efsta sæti síns riðils í A-deild Lengjubikarsins í fótbolta karla, á markatölu, en liðið vann Keflavík 4-0 á Kópavogsvelli í kvöld.

Með sigrinum komst Breiðablik úr 4. sæti upp fyrir Keflavík, FH og Grindavík en bæði Grindavík og Breiðablik enduðu með 10 stig. Markatala Blika var hins vegar mun betri, eða svo að tólf mörkum munaði.

Samkvæmt Twitter-síðu Blika var það Kristinn Jónsson sem skoraði fyrsta mark leiksins í kvöld, beint úr aukaspyrnu. Kristófer Ingi Kristinsson bætti við öðru eftir hálftíma leik, með skalla eftir hornspyrnu. 

Í seinni hálfleiknum skoruðu þeir Eyþór Aron Wöhler og Tómas Orri Róbertsson sem báðir komu inn á sem varamenn.

Blikar eru þar með fyrstir til að gulltryggja sér sæti í undanúrslitum Lengjubikarsins sem áætlað er að fari fram 13. mars. Allt útlit er fyrir að Valur, Þór og KA fylgi þeim þangað en það ræðst endanlega um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×