Stjörnumenn unnu lífsnauðsynlegan sigur á Hetti þegar liðin mættust í Subway-deildinni í Garðabænum í kvöld. Stjarnan er því enn með í baráttunni um sæti í úrslitakeppni.
Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en Stjörnumenn yfirleitt hænuskrefinu á undan. Bæði lið voru dugleg að skora í fyrri hálfleiknum og settu fjölmörg þriggja stiga skot niður. Staðan í hálfleik var 50-46 fyrir Hött sem náði góðum kafla undir lok annars leikhluta.
Leikmenn Stjörnunnar hertu á varnarleiknum eftir hlé. Hattarmenn lentu í vandræðum sóknarlega á köflum og komst Stjarnan meðal annars tíu stigum yfir í lok þriðja leikhluta. Gestirnir minnkuðu þó muninn í þrjú stig í lokafjórðungnum og hik kom á Garðbæinga.
Þá er gott að eiga Hlyn Bæringsson og Ægi Þór Steinarsson innan sinna raða. Þeir settu niður tvö risastór þriggja stiga skot og Stjörnumenn sigldu sigrinum í höfn.
Lokatölur 92-82 og Stjarnan jafnar þar með Hött að stigum í töflunni en liðin eru í 8. - 9. sæti Subway-deildarinnar. Höttur er þó ofar með betri árangur í innbyrðisleikjum.
Af hverju vann Stjarnan?
Þegar Höttur virtist vera að koma með alvöru áhlaup undir lokin voru það reynslumestu menn Stjörnunnar sem stigu upp. Hlynur og Ægir skoruðu sex stig á stuttum tíma og munurinn kominn úr þremur stigum í níu.
Varnarleikur Stjörnunnar í seinni hálfleik var ástæðan fyrir því að Garðbæingar komust tíu stigum yfir og Hattarmenn lentu í vandræðum að finna lausnir.
Viðar þjálfari Hattar saknaði án efa þeirra Matej Karlovic og Nemanja Knezevic í dag. Karlovic lék aðeins í rúmar tvær mínútur vegna meiðsla og Knezevic var veikur og munaði heldur betur um minna.
Þessir stóðu upp úr:
James Ellisor átti góðan leik og stökkskotin hans fyrir innan þriggja stiga línuna rata nánast alltaf rétta leið. Ægir Þór spilaði sömuleiðis vel og Antti Kanervo og Kristján Fannar Ingólfsson settu niður mikilvæg skot.
Fráköst Kevin Kone og Hlyns Bæringssonar voru dýrmæt og skiluðu stigum í sókninni.
Hjá Hetti var David Ramos seigur og Gustav Suhr-Jessen og Deontaye Buskey skiluðu sínu en hefðu mátt hitta betur þó svo hittnin fyrir utan teig hafi verið ágæt.
Hvað gekk illa?
Hattarmenn lentu í vandræðum sóknarlega í síðari hálfleik. Þeir voru frekar hægir og áttu fá svör við góðum varnarleik Garðbæinga. Stjarnan gerði mun betur í fráköstum og munaði þar um þá Karlovic og Knezevic.
Hvað gerist næst?
Stjarnan á næst afar áhugaverðan leik gegn Álftnesinum í sannkölluðum Garðabæjarslag. Höttur tekur á móti Haukum á heimavelli og það er leikur sem Höttur bæði þarf og á að vinna ætli liðið sér að fara í úrslitakeppni.
„Við náðum bara ekki lengra í dag“
Viðar Örn Hafsteinsson þjálfari Hattar sagði að það hefði munað um fjarveru lykilmanna í dag en hann var þó ánægður með margt í leik Hattarliðsins í leiknum.
„Við misstum aðeins stjórn á því sem við ætluðum að gera. Sóknarlega vorum við svolítið hægir og fyrirsjáanlegir og ekki að framkvæma það sem við vorum að gera og ætluðum að gera,“ sagði Viðar í viðtali eftir leik aðspurður hvað hefði breyst í síðari hálfleik eftir að Höttur skoraði 50 stig í fyrri hálfleik.
„Á sama tíma misstum við aðeins varnarleikinn úr skorðum. Þeir skoruðu nokkrar auðveldar körfur og það var svolítið munurinn hér í endann. Við settum hellings orku í þetta en erum svolítið fáliðaðir, menn að stiga í gegnum meiðsli og að koma til baka eftir að hafa náð einni eða tveimur æfingum síðustu þrjár vikur,“ bætti Viðar við en lykilmenn vantaði í lið Hattar í dag.
„Ég var ánægður með framlagið og við náðum bara ekki lengra í dag.“
Stjörnumenn kláruðu svo gott sem leikinn undir lokin með þriggja stiga körfum frá Ægi Þór Steinarssyni og Hlyn Bæringssyni. Blaðamaður spurði hvort Viðar hefði verið sáttur með að gefa Hlyn skot á kantinum en hann var síður en svo ánægður með það.
„Ekki séns. Skotið hans Hlyns, þetta er það sem hann er góður í núna. Það þýðir ekki að horfa á hvernig hann var fyrir tíu árum. Hann er að grípa og skjóta og með betri skotmönnum í þessu Stjörnuliði þegar hann fær svona færi. Ég var ekkert ánægður með það, hvorki að hann hafi sett hann né að hann hafi fengið þetta skot.“
„Ægir hitti stóru skoti og hann er með bestu leikmönnum í deildinni, hefur sýnt það og er að setja svona skot þó hann sé ekki endilega skytta. Það er margt í hans leik sem er betra en það.“
Eins og áður segir söknuðu Hattarmenn Nemanja Knezevic og Matej Karlovic í dag. Karlovic kom aðeins við sögu í byrjun en síðan ekki söguna meir.
„Matej er búinn að vera að eiga við bakmeiðsli í töluverðan tíma og það var búið að vera ágætis ról á honum. Hann fékk smá slynk á æfingu en við viljum heldur ekki þvinga menn í eitthvað þannig að þeir detti alveg út. Nemanja er búinn að vera veikur með 38-39 stiga hita í einhverja tíu daga og óvíst hvað hann verður fljótur að ná fullri orku.“
„Stundum þarf maður að ganga í gegnum meira mótlæti en oft áður. Við eflumst við það vonandi eftir á og ég er ánægður með margt sem við erum að gera í þessum leikjum. Við byggjum á því.“
„Vonandi verður það nóg“
Antti Kanervo skoraði átján stig fyrir Stjörnuna í sigri liðsins í kvöld og ræddi við Vísi eftir leikinn.
„Við hefðum viljað vinna stærri sigur en þessi leikur tækifæri til að halda okkur með í baráttunni. Ef við hefðum tapað þá værum við svo gott sem úr leik þannig að þetta var gott.“
Hann sagði að síðustu leikir væru allir búnir að vera hálfgerðir úrslitaleikir en fyrir leikinn í kvöld var Stjarnan búin að tapa sjö af síðustu átta leikjum sínum.
„Við erum búnir að spila úrslitakeppnisleiki í síðustu fjórum til fimm umferðum en tapa þeim. Það var erfitt að bíða í þrjár vikur eftir þessum leik og við náðum mönnum inn í liðið ólíkt þeim. Við vorum heppnir að það vantaði tvo góða leikmenn hjá þeim. Við tökum þessum sigri.“
Stjarnan er enn með í baráttunni um úrslitakeppnissæti eftir sigurinn í kvöld.
„Við erum með góða einstaklinga og reynslumikla menn. Við þurfum samt að vinna hart að okkur til að ná liðsframmistöðunni. Við erum ekki með sjálfstraustið eða reynsluna til að vinna með þetta lið. Við þurfum að sjá hvað gerist, við viljum vinna síðustu leikina og vonandi verður það nóg.“