Fótbolti

Fara fram á fimm ára fangelsi yfir Ancelotti

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ancelotti er ekki sá fyrsti á Spáni sem sakaður er um að skjóta undan skatti.
Ancelotti er ekki sá fyrsti á Spáni sem sakaður er um að skjóta undan skatti. Getty Images

Saksóknarar á Spáni hafa sakað Ítalann Carlo Ancelotti, þjálfara Real Madrid, um skattsvik og krefjast tæplega fimm ára fangelsisdóms vegna meintra brota hans.

Ancelotti er sakaður um að hafa svikið eina milljón evra, tæplega 150 milljónir króna á núvirði, undan skatti árin 2014 og 2015 en þá var Ancelotti þjálfari Real Madrid. Hann hætti með liðið sumarið 2015 en tók aftur við því árið 2021.

Ancelotti hafi greitt skatt af launum sínum frá Real Madrid en hafi ekki gefið upp tekjur af ímyndarrétti. Hann er sakaður um að hafa komið upp flóknu kerfi skúffufyrirtækja til þess að fela þær tekjur frá skattayfirvöldum.

Vegna meintra brota krefjast saksóknarar fjögurra ára og níu mánaða fangelsisdóms.

Hinn 64 ára gamli Ancelotti er ekki sá fyrsti í fótboltanum á Spáni sem sakaður er um að skjóta undan skatti. José Mourinho játaði sök og hlaut skilorðsbundinn árs dóm árið 2019, fyrir brot sem hann framdi meðan hann var þjálfari Real Madrid.

Lionel Messi og Cristiano Ronaldo hafa einnig verið dæmdir fyrir skattabrot á Spáni. Xabi Alonso, Samuel Eto'o, Alexis Sánchez, Luka Modric og Neymar eru einnig meðal aðila sem hafa verið kærðir fyrir slíkt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×