Dagur var kynntur sem nýr þjálfari króatíska landsliðsins á blaðamannafundi á fimmtudaginn. Fyrsta verk hans er að koma Króatíu á Ólympíuleikana í París í sumar þangað sem hann er þegar búinn að koma japanska landsliðinu.
Tók sinn tíma
Dagur hefur verið landsliðsþjálfari Japans frá árinu 2017. Króatía er fjórða landsliðið sem hann tekur við því áður hefur hann einnig stýrt Austurríki og Þýskalandi. Dagur segir að það hafi tekið tíma að losna undan samningi hjá japanska sambandinu.
„Það var alveg vinna en við afgreiddum þann hluta sem sneri að Króötunum á tíu mínútum. Það var ekkert vandamál. Það er búið að taka langan tíma með Japönunum að klára svona starfslokasamning,“ sagði Dagur Sigurðsson í samtali við Sindra Sverrisson.
Vill efla samstarfið
„Þeir voru sjokkeraðir í byrjun. Með hjálp Andra Sigurðssonar, félaga míns og lögfræðings, þá erum við búnir að landa þessu mjög vel. Þeir eru orðnir sáttir á mjög jákvæðum nótum og við ætlum að reyna að efla samstarf á milli Króatíu og Japan,“ sagði Dagur
„Vonandi spilum við æfingaleiki við þá fljótt og ég hjálpa þeim áfram að koma strákum á framfæri í Evrópu. Við erum búnir að finna góðar lausnir sem þeir eru farnir að skilja,“ sagði Dagur.
„Þeir skildu kannski ekki alveg stöðuna strax en svo þegar ég fór að útskýra fyrir þeim hvernig málin lágu þá skildu þeir það. Vitanlega svekktir en líka bara skilningur,“ sagði Dagur.
Mislásu fréttirnar
Japanska sambandið sendi frá sér tilkynningu fyrir nokkrum vikum um að Dagur væri hættur með landsliðið. Hann segir að sú tilkynning hafi komið honum á óvart.
„Ég held bara að þeir hafi mislesið fréttirnar sem komu frá Króatíu. Þeir hafa jafnvel bara haldið að ég væri búinn að skrifa undir. Svo þegar við fórum að ræða málin betur og fara yfir stöðuna þá leystust þessi mál,“ sagði Dagur.
„Ég er þakklátur fyrir það og líka bara fyrir þann tíma sem ég átti í Japan. Ég er búinn að vera með annan fótinn þar í tíu ár og það var mikilvægt að skilja við þetta á jákvæðum nótum þótt að þetta hafi aldrei verið planið að stökkva svona frá þessu. Það var eiginlega ekkert annað í boði þegar þetta kom upp,“ sagði Dagur. Það má sjá viðtalið hér fyrir neðan.