Fótbolti

For­seti La Liga vill halda Greenwood á Spáni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mason Greenwood gekk í raðir Getafe á láni frá Manchester United síðasta sumar.
Mason Greenwood gekk í raðir Getafe á láni frá Manchester United síðasta sumar. Alex Caparros/Getty Images

Javier Tebas, forseti spænsku úrvalsdeildarinnar La Liga, segist vona að Mason Greenwood spili áfram í spænska boltanum eftir að lánsdvöl hans hjá Getafe lýkur.

Greenwood er á láni hjá Getafe frá enska úrvalsdeildarliðinu Manchester United. Hann gekk til liðs við Getafe á lokadegi félagsskiptagluggans síðasta sumar. Upprunalega ætlaði United að halda Greenwood innan raða félagsins eftir að mál hans var látið niður falla þar sem hann var sakaður um heimilisofbeldi og tilraun til nauðgunnar.

Félagið sagði svo frá því á sínum tíma að líklega væri betra ef Greenwood myndi spila annarsstaðar og gaf sterklega í skyn að sóknarmaðurinn myndi aldrei spila fyrir Manchester United aftur. Sir Jim Ratcliffe, nýr meðeigandi félagsins, hefur þó sagt að nú sé mögulega kominn tími til að skoða stöðuna á nýjan leik.

Eins og áður segir vill Javier Tebas þó halda Greenwood á Spáni.

„Ég er lögfræðingur og ef einhver er fundinn saklaus í sakamáli þá er ekkert meira sem þarf að segja,“ sagði Tebas, en þrátt fyrir lögfræðigráðuna talar hann um að Greenwood hafi verið fundinn saklaus þegar hið rétta er að málið var látið niður falla.

„Hann er að standa sig virkilega vel sem leikmaður og ég vona að hann velji að vera um kyrrt á Spáni. Það væri gott fyrir okkur.

Þá sagði Tebas einnig að fólk ætti að virða viðurstöðu dómstóla.

„Þið ættuð að virða réttarkerfið. Fólk er kannski að fordæma hann í fjölmiðlum, en við verðum að virða niðurstöðu dómstóla. Það er ekkert meira sem hægt er að segja um það.“

„Hann var ekki fundinn sekur hérna þannig mér er alveg sama,“ sagði Tebas að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×