Á vef Veðurstofunnar segir að það muni lægja smám saman og draga úr vætu, en þó sé útlit fyrir að áfram rigni sleitulítið sunnantil á landinu. Gert er ráð fyrir tíu til átján metrum á sekúndu og að hiti verði yfirleitt á bilinu tvö til átta stig.
Vetrarfærð er nú víða á vegum landsins. Hvasst víða og flughálka að myndast á Vestfjörðum og á Norðurlandi að því er fram kemur á upplýsingasíðu Vegagerðsarinnar. Víða er ófært eftir nóttina og er unnið að hreinsun.
Ófært er um Bröttubrekku og á Holtavörðuheiði en unnið er að mokstri. Sömu sögu er að segja af Öxnadalsheiðinni og þá er flughálka á Þverárfjalli.
„Í kvöld gengur lægðin austur yfir landið og þá má búast við rigningu í flestum landshlutum.
Norðvestan og vestanátt á morgun, víða kaldi eða stinningskaldi, en hvassara austast á landinu fram eftir morgni. Snjókoma eða slydda með köflum víða um land og hiti um eða yfir frostmarki, en síðdegis kólnar og fer að draga úr ofankomu,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag: Norðvestan og vestan 8-15 m/s, en hvassara austast fram eftir morgni. Snjókoma eða slydda norðanlands, en skúrir eða él syðra. Hiti um eða yfir frostmarki. Dregur úr vindi síðdegis, él víða um land og kólnar.
Á miðvikudag: Austan og suðaustan 5-13 og dálítil él suðaustantil, annars þurrt að kalla. Frost 0 til 9 stig. Snjókoma eða slydda með köflum undir kvöld, en áfram úrkomulítið á Norðurlandi. Hlýnar heldur.
Á fimmtudag: Gengur í norðan og norðaustan 15-23 m/s, fyrst norðanlands. Snjókoma eða slydda víða um land og hiti kringum frostmark. Úrkomulítið á sunnanverðu landinu síðdegis og kólnar.
Á föstudag: Allhvöss norðanátt og snjókoma eða él, en þurrt að kalla sunnan heiða. Dregur úr vindi og ofankomu seinnipartinn. Frost 1 til 8 stig.
Á laugardag: Breytileg átt, bjart með köflum og yfirleitt þurrt. Frost 0 til 10 stig, kaldast inn til landsins.
Á sunnudag: Suðlæg átt með lítilsháttar vætu og hlýnandi veðri, en þurrt og svalt á Norður- og Austurlandi.