Fótbolti

„Þetta var svo­lítið mikið bara eitt­hvað“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sveindís Jane snéri aftur í íslenska landsliðið eftir meiðsli.
Sveindís Jane snéri aftur í íslenska landsliðið eftir meiðsli. Vísir/Jónína

Landsliðskonan Sveindís Jane Jónsdóttir var ekki nógu sátt með spilamennsku íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta eftir 1-1 jafntefli gegn Serbum í umspili um áframhaldandi veru í A-deild Þjóðadeildarinnar í dag.

„Mér fannst við ekki spila nógu vel og ég held að það hafi ekki verið gaman að horfa á þennan leik. Þetta var svolítið mikið bara eitthvað,“ sagði Sveindís Jane Jónsdóttir í viðtali við RÚV eftir leik.

„Við eigum seinni hálfleik eftir og það er allavega jákvætt. Við þurfum bara að vinna einn leik til að halda okkur í A-deild,“ bætti Sveindís við, en takist Íslandi að sigra Serbíu á Kópavogsvelli næstkomandi þriðjudag er áframhaldandi vera í A-deild Þjóðadeildarinnar tryggð.

Sveindís, sem var að koma aftur eftir nokkuð erfið meiðsli, spilaði allan leikinn í dag. Hún náði þó ekki að koma sér í mikið af færum.

„Mér fannst við ekki halda nógu vel í boltann og við náðum eki nógu miklu spili. Við komumst ekki í góðar stöður fyrir framan markið. Hvort það hafi verið erfitt að finna plássið eða hvort við höfum ekki verið að taka nógu góð hlaup fram á við veit ég ekki. En við getum allavega skoðað hvað við gerðum vel og hvað fór ekki nógu vel til að laga fyrir næsta leik.“

Þrátt fyrir að hafa verið að spila sinn fyrsta landsleik í langan tíma segist Sveindís þó vera nokkuð góð í skrokknum eftir þessar 90 mínútur.

„Ég er bara fín. Ég settist bara niður eftir leik af því að ég fékk högg á rassinn, það var ekkert alvarlegra en það. En ég er bara mjög góð og er orðin spennt fyrir næsta leik,“ sagði Sveindís að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×