Þetta lét Wolff hafa eftir sér á blaðamannafundi liðsstjóra á fyrsta degi prófana fyrir komandi tímabil í Formúlu 1 sem hefst í næstu viku og var hann sá eini aðspurðra sem tjáði sig um málið.
Red Bull Racing hefur ráðið óháðan aðila til þess að fara ofan í kjölinn á ásökunum á hendur Horner sem hefur neitað sök í málinu og var Horner mættur á brautarstæðið í Barein í gær þar sem að fyrsti dagur prófanna fór fram.
„Ef rétt er staðið að þessari rannsókn verður gagnsæið að vera algjört. Við verðum að taka fyrir niðurstöður rannsóknarinnar og skoða hvaða áhrif þær hafa á Formúlu 1 mótaröðina í heild sinni og hvernig við getum dregið lærdóm í framhaldinu,“ sagði Toto á blaðamannafundi í gær.
Fólk vilji frekar tala um það sem íþróttin standi fyrir heldur en mál á borð við það sem rannsóknin miðar nú að.
„Formúla 1 og liðin sem skipa mótaröðina standa fyrir inngildingu, jafnræði, sanngirni og fjölbreytileika. Það á ekki bara að gilda í orði, heldur einnig á borði.“
Hann líkt og aðrir tengdir Formúlu 1 mótaröðinni hafi heyrt orðróma í tengslum við ásakanirnar á hendur Horner á undanförnum vikum.
„Þetta er ekki bara mál Red Bull Racing. Þetta er mál sem varðar Formúlu 1 í heild sinni.“