Á vef Veðurstofunnar segir að í grófum dráttum megi búast við rigningu eða slyddu nærri ströndinni, en meiri líkur á snjókomu inn til landsins. Hiti verður á bilinu núll til fjögur stig.
Fram kemur að lægð hafi nálgast landið úr suðri í nótt og verði miðja hennar stödd yfir landinu í dag.
„Á morgun gera spár ráð fyrir að við verðum áfram inni í lægðarmiðjunni, en þegar lægðir eldast verður oft þrýstiflatneskja á stóru svæði í miðju þeirra og því er útlit fyrir rólegt veður um tíma. Seinnipartinn á morgun er síðan von á sendingu úr norðri, þá er spáð vaxandi norðanátt og fer að snjóa á norðurhelmingi landins.
Norðanáttin heldur síðan áfram á föstudag með éljagangi, en yfirleitt þurrt veður sunnan heiða,“ segir í tilkynningunni.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag: Fremur hæg breytileg átt og bjart veður, en stöku él sunnanlands. Vægt frost. Vaxandi norðanátt og fer að snjóa á norðanverðu landinu síðdegis, 10-18 m/s þar um kvöldið.
Á föstudag: Norðan 8-15 og él, en bjartviðri um landið sunnanvert. Hiti kringum frostmark og kólnar um kvöldið.
Á laugardag: Norðan 5-10 og léttskýjað, en skýjað á Norður- og Austurlandi og dálítil él þar fram eftir degi. Frost 1 til 10 stig.
Á sunnudag: Suðvestlæg átt, bjart veður og fremur kalt, en snjókoma eða slydda vestanlands og hlýnandi veður þar.
Á mánudag: Vestlæg átt. Dálítil rigning á sunnanverðu landinu og frostlaust þar. Skúrir eða él norðantil með hita kringum frostmark.
Á þriðjudag: Norðlæg eða breytileg átt og líkur á éljum í flestum landshlutum. Kólnandi veður.