Avdívka féll nýverið í hendur Rússa eftir umfangsmiklar bardaga frá því í október. Rússar höfðu lagt mikið púður í að reyna að ná borginni á sitt vald en Úkraínumenn hófu undanhald frá henni í síðustu viku.
Oleksandr Sirskí, nýr yfirmaður herafla Úkraínu, tilkynnti svo að hann hefði viljað yfirgefa borgina til að forðast óþarfa mannfall, þar sem aðstæður Úkraínumanna hefðu versnað til muna.
Sjá einnig: Avdívka alfarið í höndum Rússa
Umræddir hermenn komu að því að verja einn austasta hluta víglínunnar við Avdívka og í viðtölum við fjölmiðla eins og BBC og CNN lýsa nokkrir þeirra, sem gátu flúið, aðstæðum sem gífurlega erfiðum og gagnrýna yfirmenn sína fyrir að hafa ekki hörfað fyrr, áður en þeir urðu umkringdir.
Hermennirnir neyddust til að skilja fimm hermenn eftir, þar sem þeir voru verulega særðir og ekki hægt að flytja þá á brott undir linnulausum stórskotaliðsárásum Rússa. Einn til viðbótar var ósærður en tók þá ákvörðun að verða eftir með særðu hermönnunum.
Töldu sig hafa gert samkomulag við Rússa
Yfirmenn herdeildarinnar sem um ræðir segja að rætt hafi verið við aðila sem eiga í sífelldum viðræðum við Rússa um fangaskipti og í gegnum þá hafi Rússar verið beðnir um að hlúa að mönnunum, svo hægt væri að skipta þeim seinna meir.
Þessir aðilar fengu þau svör að hermennirnir særðu yrðu fluttir á brott og þeir myndu fá aðhlynningu. Eftir að Rússar náðu borginni birtu rússneskir hermenn þó myndir af mönnum, eftir að þeir höfðu verið skotnir til bana.
Hermennirnir náðu nokkrir að hringja í fjölskyldumeðlimi sína áður en hersveitir Rússa náðu til þeirra. Einn þeirra sagði systur sinni að þeim hefði verið sagt að reynt yrði að sækja þá á bíl en ekkert hafi orðið af því. Hún segir hann hafa sagt sér að búið væri að gera samkomulag við Rússa og þeir myndu enda í haldi Rússa.
Mágur eins hermannsins sem varð eftir segist hafa verið að ræða við einn þeirra þegar rússneskir hermenn handsömuðu þá. Hann segist hafa heyrt þá gefast upp áður en símtalið slitnaði.
„Ég sá skeggjaðan mann. Ég bað Ívan um að rétta honum símann. Ég vildi biðja þá um að drepa þá ekki. En ég heyrði rödd segja honum að slökkva á símanum.“
Þetta var á fimmtudeginum í síðustu viku. Á föstudeginum birti rússneskur herbloggari myndband frá Avdívka sem sýndi lík nokkurra hermannanna úkraínsku. Þeir höfðu verið skotnir til bana.
Með myndbandinu fylgdi texti þar sem hermennirnir voru kallaðir nasistar og stóð einnig að „einungis dauði“ biði þeirra í „okkar landi“.
Hér að neðan má sjá Facebookfærslu frá forsvarsmönnum úkraínsku herdeildarinnar sem um ræðir.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem rússneskir hermenn eru sakaðir um að hafa myrt stríðsfanga eða óbreytta borgara. Fregnir af slíkum atburðum hafa borist reglulega frá átakasvæðum Úkraínu undanfarin tvö ár.
Sjá einnig: Hafa skráð tugi aftaka á stríðsföngum
Rússneskir hermenn hafa jafnvel birt myndbönd af sér skjóta úkraínska stríðsfanga eða taka þá af lífi með öðrum hætti. Í einu tilfelli birtu rússneskir hermenn myndband af því þegar einn hermaður skar undan bundnum úkraínskum hermanni, áður en hann skaut Úkraínumanninn í höfuðið.
Öðru sinni birtu rússneskir hermenn myndband af því þegar þeir skáru höfuðið af lifandi úkraínskum hermanni.