„Við vorum að koma úr verkefni til Reykjavíkur. Mér verður litið niður á ána og sé dýrið liggja þarna á bakkanum, rétt á milli Olís sjoppunnar og Ölfusárbrúar,“ segir Valdimar Gunnarsson sjúkraflutningamaður í samtali við Vísi. Kollegi hans Anna Lilja Ásbjarnardóttir sendi fréttastofu myndir af hræinu.
Valdimar segir þau hafa ákveðið að stöðva bílinn og athuga hvort þau væru að sjá rétt. Í ljós kom að þarna var svo sannarlega á ferðinni hnísa þó Valdimar og Anna Lilja viti ekki hvernig dýrið komst þangað.
„Það er kannski einn möguleiki að dýrið hafi verið að elta æti þarna upp eftir. Ein kenningin er sú að dýrið hafi stokkið þarna óvart upp á ís. Ég veit það auðvitað ekki, þetta er eitthvað sem Náttúrufræðistofnun hlýtur að geta svarað,“ segir Valdimar léttur í bragði.
