Þess í stað var lík Alexei Navalní flutt í líkhús sjúkrahúss í Salekhard í Síberíu þar sem lögregluþjónar stóðu vörð um það.
Sjúkraflutningamaður sem blaðamaður Novaya Gazeta ræddi við sagði lík Navalnís hafa verið marið. Maðurinn taldi nokkuð víst að marblettirnir hefðu myndast við að Navalní hefði verið haldið niðri, líklega vegna einhverskonar flogs.
Eins og bent er á í frétt NG segja sérfræðingar mikla vöðvakippi oft fylgifiska eitrunar, eins og eitrunar með Novichok taugaeitrinu.
Þá sagði maðurinn einnig að marblettir bentu til þess að einhver hefði reynt endurlífgunartilraunir á Navalní. Heimildarmenn NG segja að enn hafi engin krufning verið framkvæmd og mögulega sé verið að bíða eftir sérfræðingum frá Moskvu.
Fangelsismálayfirvöld í Rússlandi tilkynntu í fyrradag að Navalní hefði dáið eftir göngutúr í fanganýlendu í norðanverðri Síberíu. Hann var sagður hafa misst meðvitund eftir göngutúrinn og eiga endurlífgunartilraunir ekki að hafa borið árangur.
Sjá einnig: Navalní sagður hafa dáið í fangelsi
Navalní var 47 ára gamall og einn helsti pólitíski andstæðingur Vladimírs Pútin, forseta Rússlands. Hann hafði reynt að bjóða sig fram til forseta en var meinað það og hann stofnaði á árum áður samtök sem opinberuðu spillingu embættis- og stjórnmálamanna í Rússlandi.
Árið 2020 var eitrað fyrir Navalní í Rússlandi með taugaeitrinu Novichok, sem þróað var af rússneska hernum. Vladimír Pútín, forseti Rússlands, viðurkenndi að útsendarar FSB, stofnuninni sem tók við af KGB, hefðu elt Navalní á þeim tíma þegar eitrað var fyrir honum.
Rúmlega fjögur hundruð manns hafa verið handtekinn í Rússlandi fyrir mótmæli eða fyrir að leggja blóm á minnisvarða vegna dauða hans.
Sjá einnig: Minnisvarðar um Navalní fjarlægðir og hundrað handteknir
Júlía Navalní, eiginkona Alexei, birti í dag mynd af þeim tveimur á samfélagsmiðlum með textanum: „Ég elska þig“.