Íslenski boltinn

Fann ást­ríðuna aftur á Ís­landi

Valur Páll Eiríksson skrifar
Steven Lennon
Steven Lennon Vísir/Sigurjón

Skotinn Steven Lennon lagði nýverið knattspyrnuskóna á hilluna eftir farsælan feril. Hann situr ekki auðum höndum og nú á þjálfun hug hans allan. 

Þegar síðustu leiktíð lauk í október sagði Lennon að hann væri ekki hættur í fótbolta en hugmyndir um slíkt komu hins vegar til hans á meðan á erfiðri leiktíð stóð. Lennon var mikið meiddur og fór á lán frá FH til Þróttar í fyrstu deild um mitt mót.

„Ég byrjaði að hugsa um þetta í fyrra og þá líka um þjálfun. FH hafði svo samband og sagði möguleika á þjálfun standa til boða. Ég tók mér tíma í að hugsa málið og féllst svo á það eftir nokkrar vikur. Núna er ég þjálfari í fullu starfi,“ segir Lennon.

Það er stór ákvörðun að enda leikmannaferilinn og Lennon segist því hafa tekið sér tíma í ákvörðunina. Við tekur nýr kafli á ferlinum og í lífinu.

„Svo sannarlega. Ég hef verið spilandi fótbolta frá því ég var 5 ára og verið atvinnumaðurfrá 16 ára aldri eftir skólagöngu svo þetta eru um 20 ár,“

„Ég þekki fátt annað en líf fótboltamannsins, æfingar, hvíld og undirbúningur fyrir næstu æfingu. Ég mun líklega ekki skilja þetta til fullnustu fyrr en strákarnir fara að spila í sumar og ég verð ekki úti á vellinum með þeim, að hjálpa þeim til að vinna og skora mörk,“

„Á þessari stundu er ég ánægður með þetta og er því ekkert mjög dapur, því ég er enn með strákunum. Þetta er bara fínt til þessa.“ segir Lennon.

Klippa: Allt ferðalagið hefur verið gott

Saknar ekki hlaupanna hjá Heimi

Lennon var í ræktinni í Kaplakrika með Kjartani Henry Finnbogassyni, sem hætti einnig sem leikmaður og tók að sér þjálfarastöðu hjá FH í vetur. Hann saknar þess ekki að vera á undirbúningstímabili í kuldanum.

„Það tók sinn tíma við lok síðustu leiktíðar að átta mig á þessu og er ánægður með að þjálfa undanfarið. Ég sakna einskis varðandi spilamennskuna og ég sakna ekki æfinganna og hlaupanna hjá Heimi [Guðjónssyni, þjálfara FH]. Ég fylgist með þeim frá hliðarlínunni,“

„Strákar eins og Bjössi [Björn Daníel Sverrisson] eru að ströggla við að hlaupa. Ég er feginn að sá tími er að baki, reyni að koma þekkingu minni á fótbolta til skila áfram svo FH geti byggt á því í framtíðinni.“ segir Lennon.

Lennon saknar ekki hlaupanna hjá Heimi.Vísir/Hulda Margrét

Lennon kom til Íslands árið 2013 og samdi við Fram. Eftir stutt stopp með Sandnes Ulf í Noregi samdi hann svo við FH og hefur verið þar frá 2018. Hann kom fyrst til Íslands sem ungur maður frá Rangers í Skotlandi. Hann segist hafa fundið ástríðuna fyrir boltanum á ný hér á landi.

„Það er ekkert eitt augnablik. Bara ástríðan fyrir því að leika á ný því ég missti hana þegar ég lék með Rangers á yngri árum. Deildin hér er mjög góð og ég tel mig hafa náð árangri. Ég held að öll upplifunin af því að leika hjá stóru félagi á Íslandi, vinna titla hér á landi. Allt ferðalagið hefur verið gott.“ segir Lennon.

Fleira kemur fram í viðtalinu við Skotann sem má sjá í heild sinni í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×