Herinn hefur haldið borginni gegn ofurafli frá því í október og er talið að Úkraínumenn hafi valdið gífurlegu mannfalli í hersveitum Rússa og kostað rússneska herinn fjölmarga skrið- og bryndreka.
Sirskí sagði í yfirlýsingu sinni að hann hefði skipað hernum að hörfa áður en fjöldi hermanna yrðu umkringdir í borginni.
Hann hrósaði hermönnum fyrir að hafa haldið borginni svo lengi gegn bestu hersveitum Rússa og hét því að úkraínski herinn myndi á endanum snúa aftur.
Sirskí hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir þá ákvörðun hans fyrr í stríðinu að reyna að halda Bakhmut mun lengur en skynsamlegt þótti. Sú ákvörðun hans er talin hafa kostað marga úkraínska hermenn lífið.
Aðstæður Úkraínumanna í og við Avdívka hafa versnað töluvert á undanförnum vikum og má það að miklu leyti rekja til skorts á skotfærum fyrir stórskotalið og loftvarnarkerfi.
Miðað við fyrstu fregnir frá Austur-Úkraínu, virðist sem undanhaldið hafi gengið vel.
Nú á eftir að koma í ljós hvort Rússar hafi getu til að nýta sér undanhald Úkraínumanna. Svo virðist sem að nýjar varnarlínur hafi ekki verið undirbúnar fyrir undanhaldið. Hafi Rússar varalið til að senda fram gegn Úkraínumönnum og samheldni og þjálfun til að skipuleggja slíka sókn strax eftir fall Avdívka, gæti það reynst Úkraínumönnum erfitt að stöðva þá.
Hingað til hafa Rússar þó ekki sýnt fram á mikla getu til að nýta sér veikleika á vörnum Úkraínumanna með stuttum fyrirvara.
Sprengjuregn
Fregnir hafa borist af því að Rússar hafi notað mikið magn af stórum gömlum sprengjum sem búið var að bæta við vængjum og stéli á, ásamt staðsetningarbúnaði. Þessum sprengjum hefur verið varpað af flugvélum úr mikilli hæð en þaðan geta þær svifið í allt að hundrað kílómetra áður en þær lenda á jörðinni með tiltölulega mikilli nákvæmni.
Úkraínskir hermenn segja að undanfarna daga hafi um sextíu slíkum sprengjum verið varpað á þá á dag í og við Avdívka, samkvæmt AP fréttaveitunni.
Síðustu daga hafði Rússum vaxið ásmegin í Avdívka og varð ljóst í gær að Úkraínumenn voru að hörfa frá borginni.
Avdívka er í jaðri Dónetsk-borgar og hefur verið lýst að hliðinu að borginni, sem er höfuðborg samnefnds héraðs og hefur verið í höndum Rússa frá 2014. Þá innlimuðu þeir Krímskaga ólöglega og studdu aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu.
Þetta er fyrsta borgin í Úkraínu sem fellur í hendur Rússa frá því þeir lögðu rústir Bakhmut undir sig í maí í fyrra. Að öðru leyti hefur víglínan í Úkraínu ekki hreyfst mikið á undanförnum mánuðum, þrátt fyrir umfangsmiklar árásir Rússa.
Selenskí biður um aðstoð
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, varaði við því á öryggisráðstefnu í Munchen í morgun að skotfæraskortur Úkraínumanna ógnaði vörnum þeirra. Þeir þurfi meira af skotfærum fyrir stórskotalið og annarskonar langdræg vopn.
„Úkraínumenn hafa sýnt að við getum sótt fram gegn Rússum. Við getum frelsað land okkar og Pútín getur tapað. Þetta hefur þegar gerst oftar en einu sinni á vígvellinum,“ sagði Selenskí.
Hann sagði það hafa verið rétta ákvörðun að hörfa frá Avdívka og hún hefði bjargað mannslífum. Þá vísaði hann til þess að Rússar hefðu varið gífurlegum mannafla og miklum hergögnum í marga mánuði til að ná Avdívka. Það eina sem þeir hefðu áorkað væri að missa hermenn.
„Við erum bara að bíða eftir vopnunum sem okkur skortir.“
Selenskí fór á föstudaginn til bæði Berlínar og Parísar þar sem hann skrifaði undir sitthvorn sáttmálann um hernaðaraðstoð til langs tíma. Í síðasta mánuði skrifaði hann undir sambærilegt samkomulag við yfirvöld í Bretlandi.