Í tilkynningu á vef VM segir að þetta hafi verið niðurstaða hitafundar nefndanna í hádeginu í dag. Þar kynnti Benóný Harðarson, forstöðumaður kjaradeildar Fagfélaganna, stöðu mála.
„Að kynningu lokinni tóku við líflegar umræður, sem fóru langt fram úr tímaáætlun. Ljóst er af þeim umræðum að þolinmæði fyrir árangurslitlum samtölum við samningaborðið í húsakynnum ríkissáttasemjara er á þrotum. Bent var á að mánuðir séu liðnir frá því samtalið hófst,“ segir í tilkynningunni.
Samninganefndirnar hafa boðað til annars fundar föstudaginn 23. febrúar og verði þá ekki útlit fyrir að samningar takist þá helgi, leggja þær á ráðin um undirbúning aðgerða til að knýja á um nýjan samning.
Félögin funduðu síðast með SA hjá ríkissáttasemjara í gær og í dag, án árangurs.