Hvort sem það eru peningar, fasteignir eða aðrar eigur fólks getur ríkið lagt hald á það, samkvæmt frétt RIA fréttaveitunnar, sem er í eigu rússneska ríkisins.
Áður en frumvarpið endaði á borði Pútíns hafði það verið samþykkt af öllum þingmönnum beggja deilda Dúmunnar á einungis tveimur vikum. Moscow Times hefur eftir forseta Dúmunnar að lögunum sé ætlað að herða refsingu „svikara“ og „óþokka“ sem séu andvíg innrásinni í Úkraínu.
Gagnrýni á rússneska herinn var í raun bönnuð skömmu eftir innrásina í Úkraínu og hefur þessum lögum verið beitt gegn fjölmörgum mótmælendum og öðrum sem hafa gagnrýnt innrásina. Moscow Times segir þúsundir hafa flúið land til að forðast fangelsi og margir þeirra hafi skilið eignir eftir í Rússlandi.
Í frétt Meduza segir þó að lögin séu ekki afturvirk. Að ekki sé hægt að nota þau til að leggja hald á eigur fólks sem hefur áður verið dæmt fyrir að rægja herinn.
Sjá einnig: Vill morðingja fyrir blaðamann
Rússneskir fjölmiðlar hafa einnig átt undir högg að sækja á undanförnum árum.
Á undanförnum árum hefur ríkisstjórn Pútíns fangelsað fjölda rússneskra blaðamanna og lokað fjölmörgum frjálsum fjölmiðlum í Rússlandi. Aðgerðir gegn frjálsum fjölmiðlum í Rússlandi hafa aukist til muna í kjölfar innrásarinnar. Nánast allir frjálsir fjölmiðlar í landinu hafa verið gerðir útlægir og eru árásir á blaðamenn tíðar.
Þá hefur verið lokað á aðgengi almennings í Rússlandi að fjölmörgum fjölmiðlum heimsins.