Sport

Vilja meira öryggi fyrir í­þrótta­menn þjóðarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kelvin Kiptum kemur fyrstur í mark í London maraþoninu á síðasta ári.
Kelvin Kiptum kemur fyrstur í mark í London maraþoninu á síðasta ári. Getty/Alex Davidson

Keníska þingið minntist hlaupastjörnunnar Kelvin Kiptum í gær og þingmenn kölluðu um leið eftir aðgerðum til að tryggja að íþróttamenn þjóðarinnar búi við meira öryggi.

Kelvin Kiptum setti nýtt heimsmet í maraþonhlaupi á síðasta ári og var á góðri leið með því að verða næsta stórstjarna frjálsíþróttaheimsins.

Hann lést í bílslysi í Kenía á sunnudaginn ásamt þjálfara sínum. Fráfall hans var mikið áfall fyrir frjálsíþróttaheiminn. Hann var aðeins 24 ára gamall og ætlaði sér stóra hluti á Ólympíuleikunum í París í sumar.

Kiptum missti stjórn á bílnum sínum á leið á æfingu með skelfilegum afleiðingum fyrir hann og þjálfara hans.

Keníska þingið heiðraði minningu Kiptum með eins mínútna þögn en margir þingmenn hafa kallað eftir ítarlegri rannsókn á bílslysinu. Þeir vilja líka tryggja það að íþróttafólk þjóðarinnar fái meiri vernd.

„Það á að koma fram við íþróttafólkið okkar eins og tignarfólk og þau eiga fá sínar eigin öryggisráðstafanir,“ sagði þingmaðurinn Phelix Odiwuor við AFP fréttastofuna.

„Við syrgjum núna en verðum engu að síður að fá aðgerðir í gang hjá íþróttamálaráðuneytinu. Þeir verða að taka íþróttafólkið okkar alvarlega,“ sagði þingmaðurinn Gideon Kimaiyo.

Kiptum er ekki fyrsta keníska íþróttastjarnan sem deyr ungur. Árið 2011 dó maraþonhlauparinn Samuel Wanjiru líka 24 ára gamall en hann hafði þá unnið gull í maraþonhlaupi á ÓL 2008. Árið 2021 þá fannst langhlauparinn Agnes Tirop myrt en hún var 25 ára.

Ababu Namwamba, íþróttamálaráðherra Kenía, gaf það út að keníska ríkið muni sjá um jarðaför Kiptum.


Tengdar fréttir

Hefði getað haft áhrif eins og Usain Bolt

Frjálsíþróttastjörnur hafa minnst Kelvin Kiptum, heimsmethafa í maraþonhlaupi, en hann lést í bílslysi ásamt þjálfara sínum í Kenía á sunnudaginn.

Faðir hlauparans vill að andlát sonar síns verði rannsakað

Samson Cheruiyot biðlaði til yfirvalda í Kenýu að rannsaka andlát sonar síns, langhlauparans Kelvin Kiptum, sem lést í bílslysi í gær. Samson sagði fjóra huldumenn hafa leitað Kelvins skömmu áður en andlátið bar að. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×