Fótbolti

Fer á láni frá Fen­eyjum til Noregs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hilmir Rafn Mikaelsson í leik á móti Englandi með íslenska nítján ára landsliðinu.
Hilmir Rafn Mikaelsson í leik á móti Englandi með íslenska nítján ára landsliðinu. Getty/Mike Egerton

Íslenski framherjinn Hilmir Rafn Mikaelsson mun spila í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í sumar.

Nýliðar Kristiansund Ballklubb hafa gert lánssamning við ítalska félagið Venezia um að Hilmir Rafn spili með norska félaginu í sumar.

Hilmar varð tvítugur í byrjun þessa mánaðar en hann er 194 sentímetrar á hæð og því öflugur í vítateignum.

„Þetta er ungur leikmaður en mjög spennandi vegna stærðar sinnar og hraða. Hann er aðallega framherji en getur spilað í öllum þremur stöðunum fremst á vellinum. Hann hefur fullt af hæfileikum sem við þurfum á að halda og við höfum unnið að þessu lengi. Við mjög ánægð með að koma þessu í höfn,“ sagði Eirik Hoseth, íþróttastjóri Kristiansund Ballklubb, á heimasíðu félagsins.

Það má búast við íslenskri framlínu hjá Kristiansund BK í sumar því fyrir hjá liðinu er Brynjólfur Willumsson. Brynjólfur opnaði markareikning sinn hjá íslenska A-landsliðinu í síðasta mánuði.

Hilmir Rafn fór til Feneyjarliðsins frá Fjölni árið 2021. Í fyrrasumar var hann á láni hjá Trömsö í Noregi. Hann spilaði þrjá deildarleiki og tvo bikarleiki með Trömsö og skoraði eitt mark.

Hilmir hefur skorað sex mörk í tuttugu leikjum fyrir yngri landslið Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×