Sport

Hefði getað haft á­hrif eins og Usain Bolt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kelvin Kiptum var framtíðarstórstjarna í frjálsum íþróttum og þegar orðinn einn af stóru nöfnunum.
Kelvin Kiptum var framtíðarstórstjarna í frjálsum íþróttum og þegar orðinn einn af stóru nöfnunum. Getty/Michael Reaves

Frjálsíþróttastjörnur hafa minnst Kelvin Kiptum, heimsmethafa í maraþonhlaupi, en hann lést í bílslysi ásamt þjálfara sínum í Kenía á sunnudaginn.

Kiptum vakti gríðarlega athygli á síðasta ári þegar hann bætti heimsmetið í maraþonhlaupi og hann varð þá jafnframt sá fyrsti til að hlaupa 42 kílómetrana á undir tveimur klukkutímum og einni mínútu í keppni.

Kiptum hafði sett stefnuna á að komast undir tvo klukkutímana og ætlaði að keppa á Ólympíuleikunum í París. Hann var aðeins 24 ára gamall.

„Kelvin var stórkostlega hæfileikaríkur íþróttamaður og hafði þegar afrekað svo margt,“ skrifaði Bretinn Sir Mo Farah á samfélagsmiðlum

„Hann var einstaklega hæfileikaríkur og ég er ekki í neinum vafa um það að hann hefði átt ótrúlegan feril. Ég sendi alla mínar samúðarkveðjur til fjölskyldu hans og vina sem og til fjölskyldu og vina Gervais þjálfara,“ sagði Farah.

Annar breskur langhlaupari, Emile Cairess, sem keppti á móti Kiptum í Londonmaraþoninu telur að Keníamaðurinn hefði getað haft Usain Bolt áhrif sem nýtt andlit frjálsra íþrótta.

„Þetta er mikil áfall því maður á hans getustigi getur náð athygli fólks fyrir utan íþróttina,“ sagði Emile Cairess við breska ríkisútvarpið.

„Margir héldu eflaust að þeir myndu aldrei sjá mann hlaupa maraþonhlaup á undir tveimur klukkutímum en svo kom hann fram á sjónarsviðið. Það var búist við því að hann næði því miðað við frammistöðu hans til þessa,“ sagði Cairess.

„Það var nánast öruggt að hann hefði náð þessu. Þetta er rosalega sorglegt og mikil synd að við fáum ekki að sjá hann reyna við þennan risamúr,“ sagði Cairess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×