Körfubolti

Leik­maður Tinda­stóls að reyna að komast inn á Ólympíu­leikana í París

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ifunanya Okoro er leikmaður Tindastóls og nígeríska landsliðsins. Hún er nú stödd í Belgíu þar sem undankeppni Ólympíuleikanna fer fram.
Ifunanya Okoro er leikmaður Tindastóls og nígeríska landsliðsins. Hún er nú stödd í Belgíu þar sem undankeppni Ólympíuleikanna fer fram. FIBA.basketball

Tindastólskonur eru án Ifunanya Okoro þessa dagana þar sem að hún er upptekin með nígeríska landsliðinu.

Okoro gekk til liðs við Tindastólsliðið í vetur og er að reyna að hjálpa kvennaliði félagsins að tryggja sér sæti í Subway deildinni næsta vetur.

Okoro hefur spilað vel og er með 20,8 stig, 8,3 fráköst og 4,2 stolna bolta að meðaltali í leik með Tindastól í 1. deildinni. Hún hefur nýtt 58 prósent skota sinna utan af velli.

Eftir þessa góðu frammistöðu á Króknum var hún kölluð til móts við nígeríska landsliðið sem er að taka þátt í undankeppni Ólympíuleikanna í París 2024.

Fyrsti leikur liðsins var á móti Senegal í gær og Nígería vann þar sjö stiga sigur. Þetta byrjar því vel hjá liðinu.

Okoro skoraði þrjú stig á rúmum tólf mínútum en hitti ekki vel því aðeins eitt af átta skotum hennar rötuðu rétta leið. Hún var einnig með tvö fráköst og eina stoðsendingu. Nígería vann með fjórum stigum þann tíma sem Okoro var inn á vellinum.

Nígería er líka í riðli með Bandaríkjunum og Belgíu þannig að verkefnið er allt annað en auðvelt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×