Fótbolti

Höfnuðu af­sögn Samuel Eto'o

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Samuel Eto'o verður áfram forseti kamerúnska knattspyrnusambandsins.
Samuel Eto'o verður áfram forseti kamerúnska knattspyrnusambandsins. Getty/Mattia Pistoia

Samuel Eto'o ætlaði að segja af sér sem forseti kamerúnska knattspyrnusambandsins í gær en framkvæmdastjórn sambandsins tók hana ekki gilda.

Eto'o var á sínum tíma kosinn besti knattspyrnumaður Afríku fjórum sinnum en hann hefur ekki átt góða daga að undanförnu.

Eto'o hefur verið sakaður um velsæmisbrot, hagræðingu úrslita og spillingu.

Framkvæmdastjórn sambandsins hittist í gær til að fara yfir gengi landsliðsins í Afríkukeppninni þar sem Kamerún datt út strax í sextán liða úrslitunum.

Fundurinn hófst á því að Samuel Eto'o bauðst til að segja af sér og lagði það jafnframt til að stjórnarmenn gerðu hið sama.

Sambandið sendi frá sér yfirlýsingu þar sem segir að stjórnarmenn hafi komist að þeirri niðurstöðu að halda starfi sínu áfram og endurnýja um leið traust sitt á Eto'o sem forseta sambandsins. Þeir hafi því hafnað afsögn Eto'o.

Samkvæmt tilkynningu sambandsins var ekkert annað tekið fyrir á fundinum og framtíð landsliðsþjálfarans Rigobert Song er því enn í óvissu.

The Athletic skrifaði grein í síðustu viku sem var byggð á WhatsApp skilaboðum sem blaðamenn komust yfir. Þau sýna margar ásakanir gegn Eto'o en meðal þess á hann að hafa hagrætt úrslitum, misbeitt valdi sínu, hótað líkamlegu ofbeldi, kvatt til ofbeldis og dreift fölskum upplýsingum.

Skýrsla um þetta á að hafa verið send til siðanefndar FIFA og sé til skoðunar hjá afríska sambandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×